Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Hofsstaðaskóli tekur þátt í Comeniusar verkefninu Rainbow Tree-Regnbogatré veturna 2011-2012 og 2012-2013.

COMENIUS – tengir saman skóla í Evrópu.
Comenius-menntaáætlun Evrópusambandsins miðar að því að koma á gæðastarfi í skólum og tryggja Evrópuvitund í menntun. Styrkt eru fjölþjóðleg samstarfsverkefni við skóla víðs vegar í Evrópu. Einnig er lögð áhersla á að auka möguleika til endurmenntunar og starfsþjálfunar kennara og efla tungumálanám á öllum skólastigum.
(Sótt af heimasíðu menntaáætlunar Evrópusambandsins).

Verkefnið "Rainbow Tree" sem standa mun yfir í tvö ár er tileinkað umhverfismennt nemenda í yngri bekkjum grunnskóla, foreldrum þeirra og kennurum. Það byggir á skapandi vinnu og virkri þátttöku og tengist sú vinna fjölmörgum markmiðum námskrár og ýmsum námsgreinum. Meginmarkmið verkefnisins er að hafa áhrif á viðhorf og breytni gagnvart náttúrunni með því að auðga þekkingu nemenda á mismunandi sviðum og þróa ýmsa leikni sem gagnast þeim til frekari þroska.
Unnið er með viðfangsefnið“ tré „ út frá mismunandi sjónarhornum, annars vegar sem mikilvæga auðlind sem hefur áhrif á líf mannsins á margan hátt og hins vegar sem efnivið sem birtist víða í sköpun mannsins og menningu.

Verkefnið er unnið í sjö þrepum og er eitt þrep fyrir hvern lit regnbogans. Uppbygging verkefnisins líkir eftir trénu sem líffræðilegu fyrirbæri og sem hugmyndafræðilegu tákni fyrir tilveruna og þróun hennar þar sem ræturnar tákna fortíðina, bolurinn nútímann og krónan framtíðina.

Þrepin eru:
Rautt þrep – Líf trésins
Appelsínugult þrep – Flóra og fræði
Gult þrep – Vinur minn, tréð
Grænt þrep – Saga trésins og sagnir um tré
Blátt þrep – Fegurð trésins
Indigo blátt þrep – Tré og handverk 
Fjólublátt þrep – Réttindi trésins

Grunnhugmyndin er sú að verkið muni líkt og tréð vaxa og þroskast í nærandi umhverfi. Það umhverfi verður til með samstilltum samskiptum og vinnu þátttakenda frá 7 menningarsvæðum. Verkinu er líkt við tré: eins og rætur munu menningarsamfélögin sjö leggja grunninn að verkefninu með innleggi sínu og hugmyndum, verkefnin verða unnin og þróuð áfram og þá stækkar og dafnar tréð og þegar það hefur náð fullum þroska skilar það að lokum ávöxtum í formi fallegra og gagnlegra verka og árangri fyrir alla þátttakendur.

Verkefnastjórar eru: Anna Magnea Harðardóttir, Elísabet Benónýsdóttir og Ragnheiður Stephensen.

Nemendur og kennarar hafa þegar hafið vinnu í tengslum við verkefnið og hér á eftir eru nokkur af þeim verkefnum sem fyrirhugað er að vinna skólaárið 2011- 2012:

  • Verkefnið kynnt á kennarafundi
  • Vef verkefnisins komið upp á etwinning.net þannig að þjóðirnar geti deilt upplýsingum og vekefnum sín á milli 
  • Útbúinn Comeníusarveggur þar sem upplýsingar um verkefnið og sýnishorn af verkefnum nemenda verða sýnileg
  • Gróðursetning trés sem mun verða tákngervingur verkefnisins meðan á því stendur og minnisvarði eftir að því lýkur
  • Nemendur læra um uppbyggingu trés og lífsferil (Rautt þrep)
  • Fólkið í kringum okkur: Hver þjóð býr til kynningu á landinu sínu og skólanum sínum og setur á vef verkefnisins svo aðrir geti skoðað.
  • Skólinn minn: Nemendur teikna myndir af skólanum og skólastarfinu. Myndirnar fara á vef verkefnisins og nokkrar verða valdar á alþjóðlega sýningu sem sett verður upp í Rúmeníu á fundi verkefnastjóra.
  • Kynningarbréf um verkefnið sent til foreldra.
  • Útbúinn bæklingur um verkefnið og upplýsingum komið á vef skólans.
  • Verkefnastjórar fara til Rúmeníu í nóvember og hitta verkefnastjóra frá hinum löndunum til að fara yfir verkefnaáætlun.
English
Hafðu samband