Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Betra tómstundaheimili

28.02.2009
Betra tómstundaheimili

Nú standa yfir framkvæmdir við nýtt tómstundaheimili sem verður staðsett í kjallara Hofsstaðaskóla. Tómstundaheimilið hefur í nokkur ár verið í íþróttahúsinu Mýrinni, en það húsnæði er ekki sérstaklega hannað fyrir starfsemi sem þessa með börnum. Stjórnendur skólans og foreldráð hafa unnið að málinu í góðu samstarfi við starfsfólk á skólaskrifstofu.
Mikill fjöldi barna dvelur í tómstundaheimilinu daglega og því skiptir máli að staðsetning heimilisins sé innan skólans þar sem hún auðveldar notkun á annarri aðstöðu s.s. mötuneyti og list- og verknámsstofum. Starfið í tómstundaheimilinu er og á að vera frábrugðið starfinu í skólanum, en jafnframt á það að vera lærdómsríkt, uppbyggjandi og skemmtilegt. Í tómstundaheimili Hofsstaðaskóla viljum við skapa börnunum hlýlegt, öruggt og notalegt umhverfi þar sem börnin eiga að fá að njóta sín í leik og starfi.

Framkvæmdir við breytinguna ganga mjög vel, en fyrirhugað er að taka nýju aðstöðuna í notkun í apríl eða strax eftir páska.
Stjórnendur og starfsfólk Hofsstaðaskóla er sannfært um að með þessari breytingu getum við boðið upp á öflugra og faglegra starf í tómstundaheimilinu.  
Að lokum langar mig til að vitna í bókun foreldraráðs frá því sl. sumar: „Foreldraráðið fagnar sérstaklega að tómstundaheimilinu hafi verið fundinn staður innan veggja skólans og vonar að aðstaðan verði í samræmi við þarfir hins stóra hóps barna sem mun nýta sér þjónustu þess“.

Til baka
English
Hafðu samband