Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Húsfyllir á fjáröflunarbingói í Hofsstaðaskóla

03.02.2010
Húsfyllir á fjáröflunarbingói í Hofsstaðaskóla

Fullt var út úr dyrum á fjáröflunarbingói foreldrafélags Hofsstaðaskóla á þriðjudagskvöld þar sem safnað var fyrir gagnvirkum skólatöflum. Þrjár slíkar töflur eru nú notaðar við kennslu í skólanum með góðum árangri.

Rúmlega 500 manns mættu á bingóið sem þótti einkar vel heppnað. Fjöldi spennandi vinninga var í boði, en mörg fyrirtæki í Garðabæ og utan bæjarmarkanna lögðu verkefninu lið með því að gefa vinninga.

“Það kom okkur skemmtilega á óvart hversu margir foreldrar og nemendur sýndu stuðning sinn í verki,” segir Sigríður Guðlaugsdóttir í tækjanefnd foreldrafélagsins. “Það segir okkur að foreldrar hafi metnað fyrir því að börnin þeirra njóti tækjabúnaðar sem auki námsárangur þeirra og áhuga á námsefninu.”

Skólinn hafi áformað að kaupa eina töflu í hverja bekkjarstofu. Eftir hrunið hafi þau áform breyst og þess vegna hafi foreldrafélagið ákveðið að leggja sitt af mörkum; “Við viljum ná upphaflegu markmiði skólans um eina töflu í hverja bekkjarstofu. Hvort það tekst á fimm árum eða tíu verður að koma í ljós,” segir Sigríður.

Þetta er annað átakið sem foreldrafélagið stendur fyrir vegna söfnunarinnar, en fyrir jól voru gefin út jólakort sem Hilmar Snær Örvarsson, einn nemandi skólans, hannaði. Á vormánuðum stefnir tækjanefndin að því að halda markað sem verður auglýstur nánar síðar.

Þeir sem vilja leggja söfnuninni lið með fjárframlagi geta lagt inn á reikning foreldrafélagsins 0318-13-300258 kt. 480699-2469.

Lítið endilega á myndir frá Neonljósabingóinu á myndasíðu skólans

Til baka
English
Hafðu samband