Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Laupurinn er listasmíð

27.04.2011
Laupurinn er listasmíðÞegar starfsfólk kom til vinnu að páskaleyfi loknu tók það eftir stóru hreiðri ofan á kastara sem vísar út á bílastæði skólans. Hreiðrið, sem oftast kallast laupur, er hin mesta listasmíð. Það er að mestu úr greinum sem hrafninn hefur safnað saman og komið svo haganlega fyrir.
Hrafninn er oft áberandi í byggð yfir veturinn. Hann er duglegur að bjarga sér þegar hart er í ári. Það var fyrst fyrir rúmum 100 árum sem íslenskum hröfnum hugkvæmdist að nota mannvirki sem varpstað og hefur þessi siður breiðst út meðal þeirra. Þetta á við sérstaklega hérna á Suðurlandsundirlendinu þar sem skortur er á varpstöðum.
Hérlendis fara hrafnar að undirbúa varp snemma á vorin og verpa þeir 4-6 eggjum í hreiðrið. Undanfarin ár hafa fyrstu ungarnir komið úr eggjum í maí þó síðustu árin hafi borið á því að þeir hafi farið fyrr af stað vegna hlýnunar. Það verður spennandi að fylgjast með hvernig hrafninum reiðir af hérna hjá okkur en hætt er við að hann yfirgefi hreiðrið ef hann fær ekki næði.
Til baka
English
Hafðu samband