Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Fjölgreindarleikar í fjórða sinn

04.11.2011
Fjölgreindarleikar í fjórða sinn

Fjölgreindarleikar Hofsstaðaskóla fóru fram 1. og 2. nóvember sl. Þá var hefðbundið skólastarf leyst upp og nemendur skólans unnu saman að fjölbreyttum verkefnum. Óhætt er að segja að vel hafi til tekist líkt og undanfarin ár því ánægjan skein úr hverju andliti.

Undanfarin fjögur ár hefur það verið fastur liður í skólastarfinu að halda svokallaða fjölgreindarleika. Við skipulag leikanna er fjölgreindarkenning Howard Gardner höfð að leiðarljósi. Skipulagðar eru ýmsar þrautir sem nemendur leysa í 12-13 manna hópum. Hóparnir eru aldursblandaðir og fá elstu nemendur skólans það hlutverk að vera fyrirliðar. Fyrirliðarnir halda utan um hópinn og hvetja til dáða. Markmiðið með leikunum er að allir fái að njóta sín, að nemendur kynnist betur hver öðrum, þeir fái tækifæri til að kynnast starfsfólki skólans og síðast en ekki síst að allir skemmti sér. Hefð er fyrir því að starfsfólk mæti í furðufötum þennan dag og stjórni þeim fjölmörgu stöðvum sem settar eru upp bæði í skólanum og íþróttahúsinu Mýrinni. Verkefnin sem nemendur eiga að leysa eru fjölbreytt og ólík, allt frá hefðbundnu bókviti til stígvélasparks.

Leikarnir eru svo gerðir upp og fá þau lið og fyrirliðar sem skara fram úr viðurkenningu á sérstakri uppskeruhátíð sem haldin verður í skólanum föstudaginn 11. nóvember.

Kíkið á myndirnar frá leikunum á myndasíðu skólans

Til baka
English
Hafðu samband