Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Bílahönnun

06.06.2012
Bílahönnun

Á lokadögum vorannar unnu nemendur 7. bekkja stórskemmtilegt verkefni um bíla. Nemendur unnu saman í pörum og fékk hvert par 1 rör, 1 grillpinna, 4 lítil dekk, bylgjupappa og límband. Úr þessu áttu þau að hanna og smíða bíl en fengu ekki frekari leiðbeiningar um hvernig væri best að takast á við verkefnið. Þau máttu einnig nýta ýmislegt smálegt sem til var í skólanum, lím, liti, pappír og skraut. Markmiðið var að hanna bíl sem kæmist vel áfram ef keyrt var niður ákveðna braut. Í lok dags var svo keppt um hvaða bíll kæmist lengst. Einnig var veitt viðurkenning fyrir flotta hönnun, frumleika og útlit.
Það var virkilega gaman að fylgjast með nemendum vinna þetta verkefni, hlusta á umræðurnar og vangavelturnar sem komu upp á milli þeirra. Í fyrstu gerðu flestir nemendur einfalda grind með dekkjum, en þegar á leið og þau prófuðu að renna bílnum eftir brautinni þá fóru þau að hugleiða aðra þætti eins og hvers vegna sumir beygðu og hvernig væri hægt að láta þá keyra meira beint áfram og hvers vegna sumir fóru miklu hraðar og lengra en aðrir og hvaða þættir höfðu áhrif á það. Heilmikill dulbúinn eðlisfræðilærdómur var í verkefninu. Svo má ekki gleyma þeim sem lögðu mikið í útlit bílsins og fannst fegurðargildið ekki síður mikilvægt. Sigurvegarar dagsins voru Haukur og Lahiru í 7. AMH en þeirra bíll komst lengst og var vel hannaður í því tilliti en þótti einnig flottur og frumlegur í útliti.

Sjá myndir á myndasíðu 7. bekkja

Til baka
English
Hafðu samband