Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

4. ÁS vinnur verkefni um vindinn

22.10.2013
4. ÁS vinnur verkefni um vindinn

Nemendur í 4.ÁS hafa verið að læra um vindinn, áhrif hans og hvernig hægt er að nýta hann.Verkefnið tengist vinnu í náttúrufræði og íslensku. Lesið var ljóðið hans Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar sem heitir Gustur eða gjóla úr bókinni hans Segðu mér og segðu….

Krakkarnir fóru ásamt Ágústu umsjónarkennara  út í rokið með flugdrekana sína. Sumir komu með flugdreka að heiman en aðrir bundu band í innkaupapoka úr plasti og létu svífa. Úlpurnar sem nemendur klæddust gripu vindinn líka vel. Einnig voru búnar til flugdrekabækur sem ,,svífa“ um í bekkjarstofunni.

Settar voru upp eftirlíkingar af vindmyllunum sem eru á ,,Hafinu“ við Búrfell, þær voru að sjálfsögðu nokkuð minni en fyrirmyndirnar en engu að síður ansi myndarlegar. Það segir sig sjálft að ekki reyndist mögulegt að hengja upp 77 metra háar vindmyllur með öllu tilheyrandi á vegginn við kennslustofuna. 

Auk ofangreindra verkefna þá  skrifuðu nemendur upp fullt af orðum og fundu málshætti sem tengjast vindinum. Síðan var farið í að flokka orðin eftir kyni. Þess vegna eru vindmyllurnar við stofuna hjá bekknum þrjár en ekki bara tvær. Krakkarnir fengu líka að búa til myndir af tækjum sem menn og konur nota m.a. vindinn til þess að ferðast með.

Það kom í ljós þegar farið var að flokka hve mörg orð um vindinn eru karlkyns. Mun færri eru kvenkyns og ennþá færri hvorugkyns. Dæmi um skrítin orð : Belgingur karlkyns, gjóla kvenkyns, fárviðri hvorugkyns.

Vindmyllurnar eru til sýnis á veggnum við bekkjarstofu 4. ÁS sem er nr.207.

Á myndasíðu bekkjarins eru fjölmargar myndir í tengslum við verkefnið um vindinn. 

Til baka
English
Hafðu samband