Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

UNICEF – leikfangasöfnun í Hofsstaðaskóla 3.-10. desember

04.12.2013
  UNICEF – leikfangasöfnun í Hofsstaðaskóla 3.-10. desemberUngmennaráð Unicef á Íslandi stendur fyrir leikfangabasar á Borgarbókasafninu í Reykjavík, þann 19. janúar n.k. Unicef óskaði eftir þátttöku Hofsstaðaskóla í verkefninu og ákveðið var að taka vel í það. Ákvörðun um það má rökstyðja með grunnþáttum og markmiðum aðalnámskrár grunnskóla í samfélagsfræði, m.a. um umhverfi og samfélag og í náttúrufræði, m.a. um samspil manns og náttúru og notkun manna á auðlindum.
Markmiðið með basarnum er að fá börn til að nýta leikföngin sín betur, læra um umhverfisvæn sjónarmið og sjálfbærni á sama tíma og þau fá fræðslu um Barnasáttmálann og réttindi sín. Börnunum verður boðið að koma með leikföng, spil eða bækur sem þau eru hætt að nota og láta þau í skiptum fyrir notaða hluti frá öðrum börnum. Þannig geta notaðir hlutir öðlast nýtt líf í höndunum á nýjum börnum. Börnin eru minnt á mikilvægi þess að fara vel með það sem þau eiga og að hægt er að endurnýta leikföng með því að láta þau ganga áfram til annarra barna. Jafnframt eru þau minnt á að til eru börn sem eiga lítið sem ekkert af leikföngum og frædd um starfsemi Unicef víðs vegar um heiminn.
Foreldrar fengu meðfylgjandi kynningarbréf um verkefnið í Mentorpósti 2. desember og Harpa námsráðgjafi heimsótti alla bekki, þar sem hún afhenti kassa fyrir söfnunina, ræddi starfsemi Unicef og verkefnið.

Kæru foreldrar og börn
Ungmennaráð Unicef á Íslandi ætlar að standa fyrir leikfangabasar fyrir börn á aðalsafni Borgarbókasafnsins 19. janúar næstkomandi. Til að þetta verkefni geti orðið að veruleika, langar okkur að biðla til ykkar um að leggja okkur lið við að koma upp safni notaðra leikfanga/bóka/spila. Skólinn hefur tekið að sér að veita leikföngunum viðtöku og hjálpa okkur að kynna verkefnið. Börnin geta afhent umsjónakennara sínum þau í bekkjastofum, þar sem þau verða geymd í kassa frá Unicef.

Hægt er að afhenda leikföng frá og með 3. desember, til og með þriðjudags 10. desember

Við værum mjög þakklát ef þið væruð til í að fara í gegnum leikfanga- og barnabókasafnið á heimilinu og styrktuð okkur með hlutum sem eru ekki í notkun lengur innan heimilisins.
Börn í Hofsstaðaskóla sem leggja söfnuninni lið fá stimpil á miða fyrir hvert leikfang sem þau leggja til í söfnunina. Þennan miða geta þau svo tekið með sér á Borgarbókasafnið og tekið í framhaldinu út jafn mörg leikföng og þau lögðu inn í upphafi.
Það er von okkar að þið takið vel í bón okkar og við sjáumst jafnframt á Borgarbókasafninu 19. janúar.

Ungmennaráð Unicef

Til baka
English
Hafðu samband