Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Göngum í Hofsstaðaskóla

25.09.2014
Göngum í Hofsstaðaskóla

Hofsstaðaskóli tekur þátt í Göngum í skólann, en það verkefni hófst formlega 10. september og lýkur 8. október. Tekið var sérstaklega vel á móti nemendum 15. september, þann dag sem skólinn okkar tók beinan þátt í verkefninu. Boðið var upp á gulrætur í öllum anddyrum skólans og umferðaröryggi var aukið næst skólanum og uppi á gatnamótum ofan við skólann þar sem mesta umferðin er, en þar eru margir að renna í hlað bæði við FG og grunnskólann. Lögreglan hefur einnig verið sýnilegri í okkar nánasta umhverfi þessa dagana.
Kennarar leggja áherslu á að ræða við nemendur um umferðaröryggi á samgöngustígum og vísa í kort sem hanga uppi á veggjum ganganna. Kortin voru búin til fyrir þetta átak en á þeim má sjá hvar gangstéttar liggja, göngustígar og undirgöng/brýr. Kortið á að auðvelda börnum að sjá úr lofti hvaða leið er hentugust í og úr skólanum. Eins eru börnin beðin um að koma með ábendingar um það sem betur megi fara á þeirra leið í skólann. Þeim ábendingum verður svo komið upp á bæjarskrifstofu til frekari skoðunar.
Umsjónarkennarar skrá einnig upp á vegg í kennslustofunni með hvaða hætti börnin koma í skólann og er það gert dag hvern um tveggja vikna skeið (15.-26.september). Kennarar skólans eru einnig að vinna að ýmsum útfærslum á verkefninu Göngum í skólann og sýna meðfylgjandi myndir dæmi úr tveimur árgöngum.
Að átakinu loknu fá allir bekkir viðurkenningarskjal og hver og einn nemandi fær endurskinsmerki að gjöf.

Skoða myndir

Myndir með frétt

Til baka
English
Hafðu samband