Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Ný viðbygging við Hofsstaðaskóla

05.08.2015
Ný viðbygging við HofsstaðaskólaSkólaárið 2015-2016 eru 488 nemendur skráðir í Hofsstaðaskóla. Ný viðbygging við skólann verður opnuð þegar skólahald hefst nú í ágúst. Nýbyggingin er alls um 1100 m2 að stærð, á tveimur hæðum. Á neðri hæð eru nýjar verkgreinastofur þ.e. stofur fyrir náttúrfræði, heimilisfræði, myndmennt, smíði og textíl. Á efri hæð eru fyrst og fremst ný stjórnunarrými svo sem afgreiðsla, skrifstofur og aðstaða starfsmanna.

Auk nýbyggingarinnar hafa verið gerðar þó nokkrar breytingar á eldra húsnæði skólans.
Eldri verkgreinastofum hefur til að mynda verið breytt í hefðbundnar kennslustofur og þar sem áður var stjórnunarálma verður nú nýtt og stærra bókasafn. Tónlistarskólinn fær þrjár kennslustofur til afnota.

Undirbúningur fyrir þessar viðamiklu framkvæmdir hófst fyrir um 2 árum. Skólastjórnendur og arkitektar unnu þarfagreiningu og lögðu fram tillögur, í framhaldi hófst fullnaðarhönnun byggingarinnar og gerð útboðsgagna. Verkið var svo boðið út s.l. vor og hefur JÁ- Verk unnið að framkvæmdinni undir verkefnisstjórn Arnars Ásmundssonar. Öll vinna hefur gengið vel og framkvæmdir hafa að mestu gengið samkvæmt áætlun en erfiður vetur tafði þó nokkuð fyrir, sérstaklega á fyrrihluta árs.

Nú er unnið að lokafrágangi og verður skólinn tilbúinn til kennslu við skólasetningu í ágúst. Einhverjar innframkvæmdir verða þó eftir eins og gjarnt er í svo stóru og flóknu verki en þær munu ekki hafa áhrif á kennslu.

Arkitektar nýbyggingar og breytinga eru hönnuðir skólans, Úti og Inni arkitektar, en hönnunarstjóri er Baldur Ó Svavarsson arkitekt. Verkfræðihönnun er í höndum VSB verkfræðistofu ehf. en Efla, verkfræðistofa hefur sinnt eftirliti með framkvæmdum. Þráinn Hauksson landslagsarkitekt hjá Landslagi sér um hönnun lóðar.
Með þessari framkvæmd er búið að ljúka byggingu skólans og færa hann til nútímalegra horfs. Skólaárið 2015-2016 verða 490 nemendur í Hofsstaðaskóla en þeir hafa aldrei verið fleiri þannig að stækkunin er kærkomin og tímabær.
Stjórnendur skólans eru mjög ánægðir með útkomuna og hlakka til að taka á móti nemendum, starfsmönnum og foreldrum nú í skólabyrjun.
Til baka
English
Hafðu samband