Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Mikil gleði á þorrablóti 6. bekkinga

02.02.2016
Mikil gleði á þorrablóti 6. bekkinga

Árlegt þorrablót 6. bekkinga var haldið í Hofsstaðaskóla miðvikudaginn 27. janúar þar sem nemendur buðu foreldrum sínum til frábærrar veislu þar sem gleði og ánægja skein úr hverju andliti. Salurinn var glæsilega skreyttur af nemendum en þeir höfðu fyrr um daginn lagt á borð fyrir 220 manns og hafa gestir aldrei verið fleiri í þau 21 ár sem þorrablót hafa verið haldin í 6. bekk enda 76 nemendur í árganginum. Hljómsveit þorrablótsins, sem Unnur tónmenntakennari stjórnaði, spilaði við komu gesta og einnig undir fjöldasöng. Þá sýndu nemendur leikritið ,,Í leit að hamingjunni“, undir styrkri stjórn umsjónarkennara, en það fjallaði um leit nútímafjölskyldu að hamingjunni. Fjölskyldan ferðaðist um allan heim í leit að hamingjunni og upplifði margvíslega listviðburði í ferðinni s.s. dans, söng o.fl. Fjölskyldan fann að lokum hamingjuna eftir mikla leit en hún býr innra með okkur.
Að loknum skemmtiatriðum var boðið upp á þorramat sem Guðrún heimilisfræðikennari og nemendur undirbjuggu en áður sáu nemendur um að fræða gesti um þorramatinn.
Undir borðhaldi fluttu nemendur minni karla og kvenna og allir tóku síðan hressilega undir í fjöldasöng. Eftir borðhald dönsuðu foreldrar og nemendur af mikilli gleði undir stjórn íþróttakennara, en nemendur hafa fengið kennslu í dansi í íþróttatímum undanfarnar vikur.

Á myndasíðu 6. bekkja má sjá fleiri myndir frá þorrablótinu

Myndir með frétt

Til baka
English
Hafðu samband