Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Viðurkenningar fyrir framlag til íþrotta- og æskulýðsstarfs

11.01.2017
Viðurkenningar fyrir framlag til íþrotta- og æskulýðsstarfsTvær viðurkenningar voru veittar fyrir„framlag til íþrótta- og æskulýðsstarfs“ á íþróttahátíð Garðabæjar í Ásgarði 8. janúar sl. Þau sem hlutu viðurkenningarnar eru Hafdís Bára Kristmundsdóttir og Gunnar Örn Erlingsson.

Hafdís Bára Kristmundsdóttir

Hafdís Bára Kristmundsdóttir byrjaði sem skáti í Skátafélaginu Vífli 1972 um leið og hún flutti í Garðabæ. Hún var í skátastarfi fram á unglingsár og síðan skátaforingi til ársins 1983. Hún kom að undirbúningi 40 ára afmælis Vífils 2006 og settist í stjórn félagsins í febrúar 2007. Fyrst sem meðstjórnandi, þá ritari og tók svo við stöðu félagsforingja 2011 og hefur gengt þeirri stöðu síðan. Í hléi frá skátastarfi var hún virk í foreldrastarfi í FH, handbolta og frjálsíþróttum og á árunum 2006-2009 einnig í foreldrastarfi í Blakdeild Stjörnunnar.

Hafdís Bára var kennari við Garðaskóla frá 1988 til 2006 og starfaði í félagsmiðstöðinni Garðalundi með kennslu til ársins 1992. Frá 2006 hefur hún starfað við Hofsstaðaskóla þar sem hún er nú aðstoðarskólastjóri.

Árin í starfi með börnum og ungmennum í Garðabæ eru því orðin 28 hjá Hafdísi Báru.

Gunnar Örn Erlingsson
Gunnar Örn Erlingsson er uppalinn í Garðabæ og hefur alla tíð verið mjög virkur í íþrótta- og tómstundastarfi bæjarins.

Gunnar æfði handknattleik með yngri flokkum Stjörnunnar og meistaraflokki á árunum 1989-1995. Þá lék hann með liðinu veturinn 2001 eftir nokkurra ára dvöl í Danmörku og svo aftur árið 2009 þegar í harðbakkann sló hjá liðinu í markmannsmálum. Gunnar tók við formennsku hjá Handknattleiksdeild árið 2013 og situr enn í stjórn deildarinnar. Á þeim tíma hefur hann verið ein helsta driffjöðurin í fjáröflun deildarinnar og fæst það óeigingjarna starf í þágu deildarinnar seint þakkað. Gunnar hefur einnig verið sérstaklega virkur í foreldrastarfi í seinni árum.

Gunnar tók virkan þátt í skátastarfi á árunum 1977-1986 og hefur verið viðlogandi skátastarf síðan. Starfaði hann meðal annars í Hjálparsveit Skáta í Garðabæ frá 1988-1995. Frá 2003 til 2008 var Gunnar íþróttafulltrúi Garðabæjar.

Gunnar Örn var fjarverandi og gat því ekki tekið við viðurkenningunni á íþróttahátíðinni.

Til baka
English
Hafðu samband