Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Microbit verkefni í 6. og 7. bekk

09.03.2017
Microbit verkefni í 6. og 7. bekk

Microbit verkefnið fór í gang í 6. og 7. bekk miðvikudaginn 8. mars en þá mættu 18 áhugasamir sjálfboðaliðar úr hópi nemenda ásamt umsjónarkennurum á námskeið og fengu leiðbeiningar um Microbit vélina og vefinn Kodinn.is en þar er að finna ýtarlegar leiðbeiningar og myndbönd sem sýna hvernig hægt er að vinna með þessar örsmáu tölvur. Þar eru einnig áskoranir sem nemendur geta glímt við og búið til og tekið þátt í keppni um forritunarverkefni. Sjálfboðaliðarnir munu verða sérstakir aðstoðarmenn kennara í sínum bekk og hjálpa félögum sínum að meðhöndla vélarnar og vinna verkefnin.Áhuginn var mikill á námskeiðinu í gær og skemmtu sér allir mjög vel. Ýmis ummæli féllu en það lofar vonandi góðu að heyra: "Ég vissi alveg að þetta væri skemmtilegt en ekki svona skemmtilegt"

Við þökkum þeim Róbert og Birni sem komu frá Spektra kærlega fyrir heimsóknina en þeir eru tengiliðir okkar og sáu um fræðsluna.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum þá fengu allir nemendur í 6. og 7. bekkjum á Íslandi gefins Microbit tölvur til að læra á og kynnast forritun. Þess má geta að nemendur í Hofsstaðaskóla eru ekki alveg ókunnugir forritun því hún hefur markvisst verið kennd með ýmsum smáforritum fyrir ipad auk þess sem nemendur í 4., 5. og 6. bekk hafa sótt tíma í forritun í tölvufærni í list- og verkgreinalotunni sinni. 4. bekkur hefur verið að vinna með Scratch en 5. og 6. bekkur hefur unnið með Alice, Kodu, ýmis verkefni á Code.org og stór hluti nemenda skólans tók þátt í Bebras áskoruninni í nóvember s.l. 

Myndir sem teknar voru á Microbit námskeiðinu miðvikudaginn 8. mars eru komnar á myndasíðu skólans.

 

Myndir með frétt

Til baka
English
Hafðu samband