Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Þorraveisla 6. bekkinga

05.02.2018
Þorraveisla 6. bekkinga

Fimmtudaginn 1. febrúar var mikið líf og fjör í skólanum. Yngstu nemendur skólans fögnuðu 100 daga skólasókn og nemendur 6. bekkja voru á þönum við að undirbúa hið árlega þorrablót þar sem þeir bjóða foreldrum/forráðamönnum til glæsilegrar þorraveislu. Undirbúningur veislunnar stendur yfir í nokkurn tíma því nemendur læra og æfa dans í íþróttatímum fyrir blótið til að geta boðið foreldrum sínum í dans. Þá er að sjálfsögðu marserað, dansaður skottís, polki o.fl sem íþróttakennarar ásamt danskennara sem kemur í heimsókn hafa æft með nemendum. Í ár komu krakkarnir einnig  á óvart með flottum Hip hop dansi sem var glæsilegur endir á frábæru kvöldi. Á þorrablótsdaginn þarf að skreyta og dekka upp salinn og er það gert undir dyggri stjórn deildarstjóra, húsvarðar og list- og verkgreinakennara.

Í veislunni sjálfri fá allir nemendur sitt hlutverk s.s. rukka inn, taka myndir, sjá um tæknistjórn og að sjálfsögðu taka þátt í skemmtidagskránni. Eftir að borðhaldi lýkur er stiginn dans undir dyggri stjórn íþróttakennaranna.

Óhætt að segja að gleðin hafi skinið úr hverju andliti þetta kvöld. Það er samdóma álit starfsmanna Hofsstaðaskóla að þetta kvöld sé nánast töfrum gætt því börnin skína sem aldrei fyrr og sýna allir sínar bestu hliðar.

Sjá myndir á myndasíðu 6. bekkja

Myndir með frétt

Til baka
English
Hafðu samband