Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Nú haustar að

25.08.2019
Nú haustar að

Nú haustar að

Einhverja nóttina koma skógarþrestirnir 
að tína reyniber af trjánum
áður en þeir leggja í langferðina yfir hafið, 
en það eru ekki þeir sem koma með haustið 
það gera lítil börn með skólatöskur.

Vilborg Dagbjartsdóttir

Hofsstaðaskóli var settur föstudaginn 23. ágúst sl. Nemendur skólans eru 586 í 26 hópum og hafa aldrei verið fleiri. Í fyrsta bekk hefja skólagöngu 66 nemendur og eru þeir til húsa í Höllinni, sérbyggingu við skólann. Aðrir árgangar eru í aðalbyggingunni. Íþróttir og sund er kennt í íþróttahúsinu Mýrinni /TM Höllinni.

Með komu nemenda lifnar skólinn við og kennarar og starfsfólk hafa undirbúið sig vel undir að taka á móti þeim. Starfsmenn eru tæplega 90 og hefur gengið vel að manna lausar stöður. Enn vantar þó starfsfólk í hlutastörf í tómstundaheimilinu Regnboganum og húsvörð.

Í sumar lét Margrét Harðardóttir skólastjóri af störfum að eigin ósk og hefur undirrituð verið ráðin í hennar stað. Auglýst verður eftir aðstoðarskólastjóra á næstunni. Margrét hefur stýrt skólanum frá ársbyrjun 2007 og tók við af Hilmari Ingólfssyni sem var skólastjóri frá stofnun hans árið 1977. Margréti þökkum við gott og gefandi samstarf, faglega og metnaðarfulla forystu. Hún verður kvödd formlega af nemendum og starfsfólki í september. Ég tek við góðu búi og hlakka til samstarfsins við forráðamenn og nemendur. Skólastarf í Hofsstaðaskóla er í miklum blóma og virkt þróunarstarf í gangi.

Hafdís Bára Kristmundsdóttir
skólastjóri

Til baka
English
Hafðu samband