Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Nýtt viðmót og hæfnimiðað námsmat

14.01.2020
Nýtt viðmót og hæfnimiðað námsmat

Í upphafi skólaárs var innleitt nýtt viðmót í Mentor fyrir alla notendur þ.e. starfsfólk, nemendur og foreldra/forráðamenn. Með nýja viðmótinu gefst nemendum og aðstandendum kostur á að sækja sér Mentor appið og hafa þannig greiðan aðgang að upplýsingum.

Samhliða innleiðingunni á þessu nýja viðmóti höfum við unnið að því að ljúka innleiðingu á hæfnimiðuðu námsmati í öllum námsgreinum í öllum árgöngum skólans. Slíkt námsmat ætti að vera kunnuglegt flestum nemendum og aðstandendum þeirra þar sem það hefur verið í öllum smiðjugreinum og hjá yngsta stigi síðastliðin skólaár (Námsframvindan).

Samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla á mat á hæfni og framförum nemenda að vera reglubundinn þáttur í skólastarfi. Megintilgangur námsmats er að kanna stöðu nemenda, nota niðurstöður til að leiðbeina þeim um námið og hvernig þeir geti náð markmiðum.
Með námsmati er fylgst með því hvernig nemendum tekst að ná almennum hæfniviðmiðum aðalnámskrár, stuðlað að námshvatningu, nemendur örvaðir til framfara og metið hvaða aðstoð þeir þurfa. Námsmat miðar að því að afla vitneskju um árangur skólastarfsins og hvernig einstaklingum og hópum gengur að ná settum markmiðum.

Í Hofsstaðaskóla munu nemendur í öllum árgöngum fá reglulega yfir skólaárið upplýsingar/endurgjöf um hæfni sína á hverjum tíma. Skólaárið er allt undir en ekki annaskipt eins og verið hefur. Stuðst er við fimm tákn við matið til að lýsa hæfni nemenda í tiltekinni námsgrein.

Matskvarði_Mentor

Nemendur og aðstandendur þeirra eru hvattir til að kíkja reglulega inn á Mentor til þess að skoða endurgjöfina/framvinduna í námsmatinu en jafn óðum safnast matið saman í hverri grein á Hæfnikort nemanda. lokamat í öllum námsgreinum verður prentað á vitnisburðarskjal og afhent nemendum í lok skólaárs.

Tengiliðalisti og tölvupóstur milli foreldra/forráðamanna

Í nýja viðmótinu heitir ein flísin Tengiliðalisti. Undir þeirri flís er hægt að velja á milli bekkjarlista sem inniheldur nöfn nemenda og starfsmannalista skólans. Hægt er að senda tölvupóst á báða þessa lista hvort heldur hóp eða einstaklinga. Aðstandendur geta stýrt sýnileika sínum á listanum en það er gert í gegnum stillingar-persónuvernd á Minn Mentor. Við bendum á að ef aðstandandi er með lokað á birtingu þar þá berst honum ekki tölvupóstur sem aðstandendur senda innan kerfisins. Til að senda póst þarf að haka við allan hópinn eða við nöfn þeirra einstaklinga sem eiga að fá póst og senda tölvupóst t.d. þegar bjóða þarf í afmæli eða minna á bekkjarskemmtun.

Myndband sem sýnir stillingar fyrir aðstandendur

Myndband sem sýnir hvernig senda á tölvupóst á bekkjarlista /tengiliðalista

 
Til baka
English
Hafðu samband