Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Gleðilega páska

03.04.2020
Gleðilega páska

Að baki eru þrjár vikur í samkomubanni og skertu skólastarfi. Við í skólanum erum afar stolt af nemendum okkar sem hafa tekið þessum sérstöku aðstæðum með jafnaðargeði og þolinmæði þrátt fyrir að eiga erfitt með að átta sig á því hvað má og hvað má ekki. Það má t.d. ekki fara á milli hópa í skólanum eða leika við krakka í öðrum hópum. Finna þarf nýja leikfélaga og ekki má fara inn á önnur heimili að leika. Íþróttir, sund, smiðjur og fleiri greinar falla niður og sum námsgögn og tæki hafa verið lögð til hliðar og má ekki má nota. Allt er þetta gert til þess að forðast smit og gæta að öryggi og heilsu nemenda, aðstandenda og starfsmanna skólans. Handþvottur og meiri handþvottur og almennt hreinlæti.

Við vonum að heimaverkefnin hafi verið hófleg og viðráðanleg. Skólinn leggur ríka áherslu á lestur og leggjum við til að öll fjölskyldan sameinist í að lesa. Foreldrar eru fyrirmynd barnanna í því eins og öðru. Hvetjið börnin til þess að taka þátt í heimilisstörfunum og leyfið þeim að aðstoða við matseld og bakstur. Mikilvægi hreyfingar og útiveru er haldið á lofti og tökum við undir það. Við skulum nýta þessar sérstöku aðstæður til góðs og skapa reglu og rútínu í fjölskyldunni ásamt uppbyggilegum samverustundum.

Nú eru n.k. kaflaskil með páskaleyfinu sem hefst mánudaginn 6. apríl og stendur til og með 13. apríl. Samkomubann hefur verið framlengt og eins og staðan er núna þá lítur allt út fyrir að skólastarf verði með sama hætti út aprílmánuð og jafnvel fram í fyrstu viku maí. Sömu tímasetningar og sömu hópar. Það mun reyna á okkur öll, seiglu og úthald. Við getum sem betur farið nokkuð frjáls um svo lengi sem við gætum að okkur og förum eftir þeim takmörkunum sem sóttvarnalæknir og Almannavarnir setja.

Við þökkum foreldrum/forráðamönnum fyrir skilning og velvild og óskum ykkur öllum ánægjulegs páskaleyfis.

Stjórnendur Hofsstaðaskóla.

 

 

Til baka
English
Hafðu samband