Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Gleðilegt sumar

23.04.2020
Gleðilegt sumar

Orðið sumar felur í sér bjartsýni, von og fyrirheit. Sólin og sumarkoman er alltaf innra með okkur þótt blási vindar og úti sé svalt. Er það ekki einmitt það sem sem við þurfum á að halda núna? Á sumardaginn fyrsta erum við vön að óska gleðilegs sumar og þakka fyrir veturinn. Þakka fyrir þennan vetur sem hefur verið strembinn á svo margan hátt.

Já við getum þakkað það að við höfum verið í miklu lærdómsferli, a.m.k. frá því í byrjun desember. Það hefur reynt á okkur og við höfum þurft að finna og hlúa að því sem skiptir máli. Í litríkum veðurviðvörunum héldum við okkur heima og fannst nú stundum að það hefði nú ekki þurft að hafa svona mikinn viðbúnað, veðrið varð alls ekki svo slæmt, a.m.k. ekki hér í næsta nágrenni.

Hvað um það, við æfðum okkur í kynna okkur viðbragðsáætlanir og fara eftir þeim sem hefur komið sér vel þessar síðustu vikur og mánuði. Við æfðum okkur í því að halda okkur heima og að hlýða fyrirmælum. Við getum þakkað fyrir að samstaða okkar hefur eflst. Þolinmæði, úthald og seigla er í stöðugri æfingu og styrkingu. Sama á við um samlíðan, jákvæðar tilfinningar í garð annarra. Fólk sem ræktar með sér samlíðan lærir að setja sig í spor annarra og það dregur úr fordómum og ofbeldi. Við megum ekki gleyma að þakka fyrir það sem við höfum, fyrir að eiga nóg af hreinu vatni og sápu, fyrir það sem við getum gert, fyrir það að vakna heilsuhraust, og það að eiga ástvini sem hugsa um okkur.

Við í Hofsstaðaskóla erum afar stolt af nemendum okkar sem hafa staðið sig með prýði í þessu sérkennilega ástandi. Þeir hafa þurft að laga sig að breyttum aðstæðum sem er heilmikil lífsleikni. Það er svo margt sem er ekki í boði. Það má ekki heimsækja ömmu og afa, fara í sund eða á æfingar. Sumir þurfa að vera heima vegna veikinda eða aðstæðna á heimilum. Á sama tíma eru þeir og við öll að læra svo margt nýtt. Nýjar náms- og vinnuaðferðir og finna alls kyns afþreyingu og líka að læra að láta sér leiðast! Nýr orðaforði, sóttkví, heimsfaraldur, smitrakning, hjarð-ónæmi, þríeyki auk alls kyns tölfræði og aðferðarfræðihugtaka upplýsinga og fróðleiks. Við vitum ýmislegt í dag sem við vissum ekki í gær. Ekki er ólíklegt að ný áhugasvið opnist og ungmenni sjái tækifæri í því að læra veirufræði, líffræði, hjúkrun eða læknisfræði. Verða táknmálstúlkar eða lögregluþjónar.

Foreldrar og forráðamenn eiga þakkir skyldar fyrir æðruleysi og þolinmæði. Skerðing á vistunartíma og skóladegi og margir þurfa að sinna vinnunni sinni heima með fjölskylduna hjá sér. Allir eru að leggja sig fram við að halda samfélaginu gangandi. Það er notalegt að sjá fjölskyldur saman úti að ganga og hjóla. Eða saman niðri í fjöru að leita að skeljum og steinum. Á fésbókinni sjáum við skemmtilegar myndir af bakstri, eldamennsku söng og glaðværð. Það styrkir og nærir ræturnar okkar.

Ég er líka afar stolt og óendalega þakklát fyrir starfsfólk skólanna. Það eins og heilbrigðisstarfsfólkið hefur þurft að standa vaktina í framlínu til þess að halda skólastarfinu gangandi og um leið setja eigin líðan og hagsmuni til hliðar. Það er dýrmætt að tilheyra slíkum hópi.

Við erum að lifa sögulega tíma, tíma sem skráðir verða í fræðirit og námsbækur og vitnað í um ókomna tíð. Tíma sem eiga sér ekki fordæmi. Afkomendur okkar munu heyra um þessar fordæmalausu aðstæður. Hver sá fyrir að nánast allt væri lokað eða bannað árið 2020. Ekki hægt að fara í klippingu eða á bókasafnið Ferðabann og lokuð landamæri, ekkert flug og svo margt sem er bara ekki í boði. Það er mikill lærdómur í samfélagi alsnægta. Þótt fræðimenn hafi séð þennan möguleika fyrir og undirbúið þá trúðum við því fæst að svona ástand yrði einhverntíma raunveruleiki. Okkar raunveruleiki. Við erum reynslunni ríkari og megum ekki gleyma að vera auðmjúk því þetta er staða sem við höfum litla sem enga stjórn á. Við viljum geta stjórnað flestu en við höfum komist að því, áþreifanlega að svo er ekki.

Við sjáum nú fram á að brátt fari skólastarf að færast í eðlilegra horf líkt og margt annað í samfélaginu. Slakað verður á takmörkunum skref fyrir skref. En frelsi fylgir ábyrgð. Við verðum að sýna ábyrgð, fara okkur hægt og vanda okkur og það mun reyna á úthaldið. Áfram er afar brýnt að hver passi sjálfan sig, þvoi sér oft og vel og haldi fjarlægðartakmörk. Við verðum að varðveita og viðhalda það jákvæða sem við þó höfum reynt og lært í vetur. Samstöðuna, samkenndina og fjölskyldusamveruna og muna hvað það er sem skiptir máli, nærir okkur og eflir.

Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn.
Hafdís Bára Kristmundsdóttir
skólastjóri

Til baka
English
Hafðu samband