Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Hefðbundið skólahald frá 4. maí 2020.

30.04.2020
Hefðbundið skólahald frá 4. maí 2020.
Mánudaginn 4. maí hefst aftur hefðbundið skólastarf í Hofsstaðaskóla. Nemendur mæta í skólann skv. stundaskrá kl. 8:30. Íþróttir, sund, smiðjur, frímínútur og matsalur verða með hefðbundnum hætti. Nemendur sem eru í mataráskrift fá heitan mat frá og með mánudeginum og eru foreldrar beðnir um skoða áskriftina ef henni var breytt/sagt upp í samkomubanninu og hafa samband við Skólamat vegna þess. Nemendur þurfa að vera klæddir til útiveru og fer hluti af íþróttakennslunni fram utan dyra. Frístundaheimilið Regnboginn verður opinn eftir skóla fyrir þau börn sem þar eru skráð.
Mikilvægt er að allir nemendur mæti í skólann frá og með 4. maí og er skólunum gert að fylgja fast eftir að nemendur sæki skóla. Við viljum biðja foreldra, eins og áður, að vera í góðu samstarfi við umsjónarkennara barna sinna. Það er mikilvægt fyrir kennara að fá upplýsingar sem gætu auðveldað að fylgjast með líðan nemenda.
Foreldrar/forráðamenn og aðrir gestir geta ekki komið inn í skólahúsið nema þeir séu sérstaklega boðaðir þangað. Verklagsreglur um smitgát gilda áfram um fullorðna og er lögð rík áhersla á að halda 2ja metra fjarlægð og starfssemin skipulögð á þann hátt að aldrei séu fleiri en 50 fullorðnir í sama rými.
Starfsfólk mun áfram fara eftir sóttvarnarráðstöfunum. Nemendur eiga að vera duglegir við handþvottinn áfram og hafa aðgang að spritti í öllum kennslustofum, salernum og matsal.
Framundan eru rúmar fimm vikur fram að sumarleyfi nemenda og mikilvægt að nýta þann tíma vel til náms og þroska. Áður auglýst dagskrá mun breytast og verður auglýst jafnóðum. Ljóst er að viðburðir þar sem gert var ráð fyrir þátttöku foreldra/forráðamanna verða með öðrum hætti. Dagskrá nemenda verður engu að síður fjölbreytt, útivera og útikennsla ásamt uppgjöri skólaársins og frágangi námsmats.
Hofsstaðaskóli þakkar foreldrum og nemendum fyrir skilning, tillitssemi, stuðning og hvatningu undanfarnar vikur. Við teljum að skólastarfið hafi farið fram með besta móti miðað við óvenjulegar aðstæður og hlakkar starfsfólk skólans mikið til að sjá alla nemendur á mánudaginn og ljúka skólaárinu á hefðbundinn hátt.
Kærar kveðjur,
Skólastjórnendur
Til baka
English
Hafðu samband