Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Skólalok og sumarleyfi

18.06.2020
Skólalok og sumarleyfi

Hofsstaðaskóla var slitið þriðjudaginn 9. júní. Vegna fjöldatakmarkana voru einungis foreldrar/forráðamenn í fylgd nemenda í 1. og 7. bekk. 1. bekkingar luku sínu fyrsta skólaári á því að syngja fyrir starfsfólk og foreldra undir stjórn Unnar Þorgeirsdóttur lagið Draumar geta ræst. Þeir stóðu sig afar vel í vetur og eru sterkur og skemmtilegur hópur. Nemendur í 2. til 6. bekk mættu í bekkjarstofur og áttu góða stund með umsjónarkennara sínum. 7. bekkingar hlýddu á ávarp skólastjóra og frumsamið ljóð eftir samnemanda Þórdísi Áróru og fóru svo í bekkjarstofur og kvöddu umsjónarkennara sína. Starfsmenn sem hætt voru kvaddir í samverustund og þar á meðal er Áslaug Þorgeirsdóttir sem hefur kennt heimilisfræði við skólann í 26 ár. Færum Áslaugu innilegar þakkir fyrir gott og gefandi samstarf, fagmennsku og farsælt starf.

Skólaárið 2019-2020 var afar viðburðaríkt í Hofsstaðaskóla og verður sögulegt fyrir margra hluta sakir. Nýir skólastjóri tók við í haust og svo nýr aðstoðarskólastjóri og deildarstjóri stoðþjónustu. Nemendur hafa aldrei verið fleiri í sögu skólans eða 586 og hvert rými nýtt til kennslu. Í september var opnunarhátíð Göngum í skólann haldin að viðstöddum ýmsum gestum m.a. ráðherra og lögreglustjóra. Nemendur gengu saman af stað og hófu þar með heilsuátakið. Þeir söfnuðu líka skóm til þess að gefa og röðuðu þeim upp á táknrænan hátt. Samræmd próf í 4. bekk voru á sínum stað og HS leikar sem þykja jafnan mjög skemmtilegir. Í desember kom gríðarlegt óveður sem raskaði skólastarfi og það hélt áfram í janúar og fór svo að skólahald féll niður einn dag. Eftir vikuvetrarfrí í febrúar fóru áhrif Kórónaveirunnar að koma í ljós og 16. mars var öllu skólastarfi snúið á hvolf og það endurskipulagt. Hópar voru minnkaðir og skóladagur styttur. Í Hofsstaðaskóla tókst að bjóða yngstu nemendunum upp á sex klst. skóladag með frístundaheimilinu og þeir elstu voru tvær klst. á dag. Starfið gekk einstaklega vel og það ber að þakka. Allir lögðust á eitt og tókst vel að sinna grunnþáttum námsins en margir söknuðu list- og verkgreina og íþrótta. Vordagar voru með óhefðbundnu sniði þar sem ekki var farið í rútu- eða strætóferðir. Þess í stað var nærumhverfi skólans vel nýtt og farið í hjóla- og gönguferðir.

570 nemendur eru innritaðir í skólann næsta haust og þar af 70 í 1. bekk. Skólasetning verður mánudaginn 24. ágúst og kennsla hefst 25. ágúst. Frístundaheimilið Regnboginn opnar 17. ágúst fyrir nemendur í 1. bekk. Nauðsynlegt er að skrá börnin þar inn sem fyrst. Sama gildir um börn í 2. til 4. bekk.

Stjórendur og starfsfólk þakka ánægjulegt og nærandi samstarf og óska nemendum og fjölskyldum þeirra ánægjulegs sumarleyfis. Megi sól og sunnangola verma okkur öll í sumar.

Til baka
English
Hafðu samband