Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Forritunarkennsla

19.02.2021
Forritunarkennsla

Nemendur í Hofsstaðaskóla kynnast forritun strax í upphafi skólagöngunnar. Á fyrstu árum er unnið með hlutbundna forritun þ.e. krakkarnir þjálfa sig í að búa til einföld forrit og prófa að virkja þau á litlum forritanlegum hlutum "vélmennum eins og t.d. Blue Bot býflugunum, Robot mouse músunum og Sphero kúlunum. Við teljum mikilvægt að halda úti markvissri forritunarkennslu fyrir nemendur því ávinningurinn af henni er mikill. Að þekkja og nota forritunartungumál er ákveðið læsi á stafrænni öld. Með forritunarþekkingunni færasta nemendur frá því að vera eingöngu neytendur að tækninni yfir í að vera notendur og þeir geta nýtt sér hana til sköpunar. Það er í raun einungis þeirra eigin ímyndunarafl sem stjórnar ferðinni.

Þegar unnið er með forritun þjálfast bæði rökhugsun og lausnarmiðuð hugsun. Nemendur sjá afraksturinn á gagnvirkan hátt um leið og þeir forrita og eitthvað sýnilegt verður til. Nemendur þjálfast í samvinnu og þolinmæði því það að leita lausna saman og sýna þrautseigju lærist vel með forritun. Nemendur læra að hugsa leiðina að takmarkinu í litlum skrefum, brjóta vandamálin í minni einingar og finna lausnir á hverri þraut með gagnrýnni hugsun. Leikni á þessu sviði gefur nemendum færni sem getur orðið þeim mikilvæg í framtíðinni.

Forritun er stór hluti af okkar daglegu lífi því ef við lítum í kringum okkur þá eru ansi margar athafnir daglegs lífs sem krefjast forritunar af einhverju tagi s.s. að senda tölvupóst, horfa á streymisveitur í sjónvarpi, láta ryksuguvélmennið renna yfir gólfið, fylgjast með íþróttamótum og þannig mætti lengi telja. Forritun er góð leið til að læra af mistökum, því leiðir að markmiðinu geta verið margar og alls ekki sjálfgefið að ná réttri leið í fyrstu tilraun. Þá þarf að greina mistökin, læra af þeim og gera betur. Oft ná þeir nemendur sem ekki finna sig jafn vel í öðrum bóklegum námsgreinum góðum tökum á forritun og þannig getur hún aukið sjálfstraust og almennan áhuga á námi hjá þeim einstaklingum. Markmiðið með forritunarkennslu er ekki að allir verði forritarar, heldur að allir fái tækifæri til að kynnast forritun. Þannig er verið að þjálfa margþætta færni sem nýtist nemendum okkar í framtíðinni. Alveg eins og allir þurfa að kynnast heimilisfræði, smíðum og fleiri greinum í grunnskóla.

Hjá yngstu nemendunum fer forritunarkennslan gjarnan fram í hringekjum eða skipulögðum tímum bekkjanna. Þá eru gjarnan notuð ipad tæki og ýmis vélmenni og búnaður sem gerir nemendum kleift að sjá forritin lifna við. Í fyrstu læra nemendur s.k. kubbaforritun og búa til röð aðgerða sem þeir prófa og greina. Þegar nemendur koma í 3. bekk er forritun kennd í smiðjum. Þá koma nemendur í minni hópum í nokkrar vikur þar sem unnin eru ýmis konar verkefni. Til að gefa hugmynd að megin viðfangsefnum eftir árgöngum þá erum við að vinna með:

3. bekkur-Scratch
4. bekkur- Makey Makey og Scratch
5. bekkur-Sambland af Scratch, Makey Makey
6. bekkur-Microbit
7. bekkur-Sphero og Swift Playground.

Auk þess eru unnin ýmis verkefni á forritunarvefjum s.s. code.org o.fl. 

Okkur til aðstoðar við forritunarkennsluna í 4. - 7. bekk er Úlfur Atlason frá Skema og hefur verið mikill fengur að fá hann. 

Á myndasíðu skólans eru nokkrar myndir sem teknar hafa verið í kennslustundum og einhverjum af þeim kennslutækjum sem við eigum í okkar fórum. Endilega kíkið á

myndirnar

Myndir með frétt

Til baka
English
Hafðu samband