Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Garðabæ

28.05.2021
Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í GarðabæLokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar var haldin í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju, miðvikudaginn 26. maí. 8 nemendur úr 7. bekk úr Álftanesskóla, Flataskóla, Hofsstaðaskóla og Sjálandsskóla fengu að spreyta sig á upplestri á fyrirfram ákveðnum textum úr skáldsögu og ljóðum. Fulltrúar Hofsstaðaskóla voru þær Emilía Geirsdóttir, Lovísa Anna Jóhannsdóttir og Kristín Sif Gísladóttir sem varamaður og stóðu þær sig einstaklega vel.

Í ár voru skáld keppninnar Bergrún Íris Sævarsdóttir og Kristján frá Djúpalæk. Einnig fengu nemendur að lesa ljóð að eigin vali. Á meðan á hátíðinni stóð var einnig boðið upp skemmtiatriði frá skólunum og voru það einstaklega flott píanóatriði en Þórdís Unnur Bjarkadóttir flutti tónlistaratriði fyrir hönd Hofsstaðaskóla.

Í lok hátíðar afhenti Eiríkur Björn Björgvinsson, forstöðumaður fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar, öllum lesurunum bók frá Félagi íslenskra bókaútgefenda sem viðurkenningu fyrir þátttökuna. Varamenn sem tóku fullan þátt í undirbúningnum voru einnig kallaðir upp á svið og fengu bókaverðlaun. Dómnefnd sem var að störfum fékk það erfiða val að velja þrjá lesara úr hópnum og veita þeim viðurkenningar og verðlaun fyrir 1., 2. og 3. sæti.
Lovísa Anna Jóhannsdóttir í Hofsstaðaskóla varð í öðru sæti. Í fyrsta sæti var Helga María Guðjónsdóttir úr Flataskóla og í þriðja sæti var Birnir Eiðar Eiríksson úr Sjálandsskóla. Hér má sjá myndir
Til baka
English
Hafðu samband