Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Samskipti, örugg netnotkun og notkun samfélagsmiðla

24.10.2022
Samskipti, örugg netnotkun og notkun samfélagsmiðla

Í dag mánudaginn 24. október komu nemendur í 6. bekk saman á sal skólans og hlýddu á fræðslu um samskipti, örugga netnotkun og notkun samfélagsmiðla. Námsráðgjafi og skólahjúkrunarfræðingur sáu um fræðsluna. 

Netið er frábært verkfæri sem býður upp á fjölbreytilega möguleika til fræðslu og skemmtunar en þar geta börn einnig rekist á efni sem er ekki við hæfi eða átt í skaðlegum samskiptum. Auðvelt er orðið að deila alls kyns efni á netinu og því er nauðsynlegt að foreldrar/forsjáraðilar séu þeim til leiðsagnar því börn hafa ekki náð þroska til að skilja til fulls hvaða áhrif netnotkun og samfélagsmiðlar geta haft í för með sér.

Hér á eftir eru nokkrir punktar sem gott er að fara yfir með börnunum:

  • Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að aldurstakmörk eru sett til verndar börnum, og byggja m.a. á því að börn undir 13 ára aldri hafa ekki tekið út fullan andlegan og félagslegan þroska og búa því ekki endilega yfir hæfni til þess að átta sig á því hvaða áhrif samskipti á netinu geta haft og hvernig þau eru öðruvísi en önnur samskipti.
  • Allt sem gert er á netinu er sýnilegt öðrum!
  • Skilaboð, myndir og myndskeið geta lifað á netinu löngu eftir að það var upphaflega birt og þannig getur dreifing orðið miklu víðtækari en hún átti að vera.
  • Bannað er samkvæmt lögum að birta persónuupplýsingar um fólk, þá er verið að tala um upplýsingar eins og nafn, heimilisfang, símanúmer, netfang og myndir og myndskeið. Þessar upplýsingar eru einkamál og ef barn vill til dæmis áframsenda eða deila mynd af öðrum verður að biðja um leyfi fyrst.
  • Gættu þess að barn þitt sé með læstan aðgang að þeim samfélagsmiðlum sem það notar, svo samþykkja þurfi þá einstaklinga sem vilja fylgja þeim þar, mikilvægt að það samþykki enga sem það þekkir ekki eða treystir ekki.
  • Góð samskipti á netinu eru jafn mikilvæg og annars staðar, það sem fólk gerir á netinu endurspeglar þeirra persónu.
  • Rannsóknir hafa sýnt að skjánotkun fyrir svefntíma hefur slæm áhrif á svefngæði fólks, þó svo að birtustig sé lækkað. Börn á aldrinum 6 – 12 ára þurfa að minnsta kosti 10 tíma svefn á nóttu. Börn sem sofa nóg líður almennt betur, eru hamingjusamari, hraustari og eiga auðveldara með félagsleg tengsl.

Ýmsar leiðbeiningar eru til fyrir foreldra, ábyrgðaraðila og starfsfólk í skóla- og frístundastarfi sem varða netið, samfélagsmiðla og börn:

Vefsíða umboðsmanns barna- barn.is þar eru m.a. leiðbeiningar fyrir foreldra um Netið og samfélgasmiðla einnig eru góðar leiðbeiningar á Saft.is þar er m.a. að finna fræðslu fyrir foreldra um stafræna borgarvitund t.d. um ung börn og snjalltækni -grunnur að góðri byrjun og börn og miðlanotkun

Hér eru nokkrar myndir frá fræðslunni

Til baka
English
Hafðu samband