Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Niðurstöður úr sýnatöku úr skólahúsnæði

07.12.2022
Niðurstöður úr sýnatöku úr skólahúsnæðiÁ fundi með forráðamönnum nemenda sem var haldinn síðdegis í dag miðvikudaginn 7. desember voru niðurstöður úr sýnatökum úr skólahúsnæði Hofsstaðaskóla kynntar.

Á fundinum kom fram að fimm kennslustofum í Hofsstaðaskóla verður lokað þar sem mygla greindist í þeim í kjölfar sýnatöku í síðasta mánuði. Endurbætur á stofunum hefjast eins fljótt og unnt er. Kennsla raskast óverulega vegna þessa og stefna bæjaryfirvöld að því að leigja færanlegar skólastofur sem verður komið fyrir á skólalóðinni strax eftir jólafrí.

Næstu daga og fram að jólafríi verður kennsla í þeim bekkjum sem hafa notað stofurnar fimm sem verður lokað færð annað.

Mikilvægt er fyrir börnin okkar að umræða um stöðuna sé yfirveguð og þess gætt að halda ró. Verið er að bregðast við skemmdum og afleiðingum þeirra og í kjölfarið er áformað að fara í víðtækar endurbætur á skólahúsnæðinu. Best er að segja eins og er að það hafi fundist mygla á nokkrum stöðum og verið sé að skoða húsið betur. Vitað er um nokkur tilvik þar sem hugsanlega má rekja veikindi nemenda til þess.

Ítarlegri mælingar á húsnæði Hofsstaðaskóla
Í framhaldi af ábendingum um loftgæði í Hofsstaðaskóla voru tekin sýni í byrjun nóvember 2022 og þau send í greiningu. Samkvæmt niðurstöðum þeirra fannst mygla undir gólfdúk í þremur kennslustofum. Jafnframt greindist mygla í ryki í tveimur öðrum kennslustofum og hefur öllum fimm kennslustofunum verið lokað. Öll húsgögn og munir sem eru inni í kennslustofunum verða fjarlægð og sótthreinsuð með viðeigandi hætti. Svo virðist sem rekja megi mygluna til eldri rakaskemmda í skólanum sem búið var að lagfæra.

Til að gæta að fullu öryggi nemenda og starfsfólks mun verkfræðistofan Mannvit ráðast í ítarlegri mælingar á húsnæði Hofsstaðaskóla. Gert er ráð fyrir að niðurstöður þeirra mælinga liggi fyrir fljótlega á nýju ári. Lofthreinsitæki verða sett inn í nokkrar stofur.
Mannvit vinnur með bæjaryfirvöldum að aðgerðar- og kostnaðaráætlun vegna viðgerða á skólanum.
abaer.is
Til baka
English
Hafðu samband