Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Loksins var komið að þorrablóti 6. bekkinga

27.01.2023
Loksins var komið að þorrablóti 6. bekkinga

Miðvikudaginn 26. Janúar var merkur dagur í skólanum en þá var loksins komið að áður árlegum viðburði sem setti mark sitt á skólaárið. Þorrablót 6. bekkinga er einn af þeim stóru viðburðum sem nemendur bíða í eftirvæntingu eftir og minnast eftir að þeir kveðja skólann. Síðastliðin ár hefur ekki verið mögulegt að halda þorrablótið sökum samkomutakmarkana í tengslum við Covid.

Nú var rykið dustað af dansskónum og rifjuð upp öll þau verkefni sem tengjast því að halda slíkan viðburð. Undanfarna viku hafa nemendur staðið í ströngum undirbúningi undir styrkri stjórn umsjónarkennara, tónmenntakennara, íþróttakennara, heimilis- og myndmenntakennara, kennsluráðgjafa og fleira starfsfólks skólans því læra þarf réttu danssporin og setja upp glæsilega skemmtidagskrá fyrir þorraveisluna og útbúa matarveisluna. Þorramaturinn er að vanda skorinn niður og undirbúin af nemendum sem fara í einu og öllu að ráðum heimilisfræðikennara. Nemendur sjá einnig um að skreyta salinn með aðstoð myndmenntakennara, dekka upp salinn undir stjórn Margrétar Erlu deildarstjóra eldri deildar og stýra tæknimálum á sýningunni sjálfri og aðstoða á sviði. Síðast en ekki síst ber að nefna alla þá nemendur sem stíga á stokk þetta kvöld og láta hæfileikana njóta sín.

Gleði skein úr hverju andliti þegar stóra stundin rann upp. Nemendur og foreldrar mættu í sínu fínasta pússa og nutu góðra veitinga. Boðið var upp á fjölbreytt skemmtiatriði sem samanstóðu af leikritum dans, söng og þorraskaupi í boði myndbandahópsins. Stórglæsilegu kvöldi lauk síðan með dansi þar sem Hreinn íþróttakennari stjórnaði nemendum og foreldrum í dönsum sem búið er að kenna nemendum í íþróttatímum. Margrét aðstoðarskólastjóri og Hlynur íþróttakennari fóru fyrir dansinum og fylgdi þeim stórglæsilegur hópur foreldra sem dönsuðu við börnin sín. Takk nemendur og foreldrar fyrir frábært kvöld.

Drengir flytja fósturlandsins freyja

Stúlkur flytja Táp og fjör

Kíkið á myndir frá undirbúningi þorrablótsins og frá blótinu sjálfu á myndasíðu 6. bekkja


Myndir með frétt

Til baka
English
Hafðu samband