Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Röskun á skólastarfi í Hofsstaðaskóla

17.02.2023
Röskun á skólastarfi í Hofsstaðaskóla

Fimmtudaginn 9. febrúar sl. voru stjórnendur skólans kallaðir á fund með skóladeild þar sem gerð var grein fyrir því að loka þurfi austurálmu skólans, stofum 120-125 og 220-227 vegna leka í gluggum og þess að mygla hefur greinst í þremur kennslustofum þar og tveimur skrifstofum. Viðgerðir á gluggum og útveggjum þar geta ekki hafist fyrr en í vor eða sumar.
Á fundinum voru einnig kynntar niðurstöður úr sýnatökum sem gerðar voru í desember og janúar s.s. Í ljósi alls þessa var tekin sú ákvörðun að fella niður skólastarf föstudaginn 10. febrúar. Foreldrar fengu bréf í tölvupósti og sms skilaboð voru send síðar um daginn.

Föstudagurinn hófst á starfsmannafundi þar sem bæjarstjóri og sviðsstjóri umhverfissviðs gerðu grein fyrir viðgerðum sem eru að hefjast á vesturálmunni, stofum 103-111 og 201 til 211. Verkfræðistofan Mannvit gerði grein fyrir niðurstöðum úr sýnatökum og fengu starfsmenn kærkomið tækifæri til þess að spyrja ýmissa spurninga og ræða saman. Að fundi loknum fóru allir starfsmenn í það að tæma allar kennslustofur í bæði, austur og vesturálmu. Pakka þurfi niður öllum kennslugögnum og fjarlægja húsgögn. Sumt var sent í hreinsun og öðru var fargað. Lokið var við að tæma þær stofur sem mygla hafði greinst í og fara þurfti að með sérstakri gát.

Samhliða þessu hófust verktakar handa við að undirbúa framkvæmdir, loka rýmum með sérstökum plastlokunum og einangrun, koma fyrir útloftun út um glugga í stofum og fjarlægja veggdúka/upphengitöflur, taka niður ljós, ofna og fleira sem þurfti. Verkfræðistofan Verksýn hefur yfirumsjón og eftirlit með framkvæmdunum og hefur ráðið fyrirtæki Kappar til þess að vinna verkið. Þeir hafa unnið frá morgni og fram á kvöld alla daga síðan þá og hefur verkinu miðað ótrúlega vel. Allar stofur eru málaðar og þrifnar vandlega að framkvæmdum loknum. Útlit er fyrir að eftir hádegi föstudaginn 24. febrúar geti kennarar flutt aftur inn í kennslustofur. Vonandi stenst það.

Stjórnendur hafa unnið við það að endurraða í kennslustofur og endurskipuleggja skólastarfið m.t.t. þrengra húsnæðis. Markmiðið er að finna lausnir fyrir alla bekki og hópa innan skólahúsnæðisins og í íþróttahúsinu Mýrinni svo ekki þurfi að færa starfsemina annað á meðan þetta viðgerðaástand varir. Það er enn í vinnslu.
Skólayfirvöld ákváðu að fella niður kennslu 20. og 21. febrúar en bjóða upp á dvöl fyrir nemendur í 1. – 3. bekk í frístundaheimilinu Regnboganum frá kl. 8.30 til 17.00 þessa tvo daga. Skólamatur verður með hádegisverð fyrir þau börn sem eru í mataráskrift en önnur börn koma með nesti. Gengið verður inn í Regnbogann í kjallaranum og gæta þarf vel að bílaumferð á vegum verktakanna.

Dagana 22. til 24. febrúar verða svo s.k. uppbrotsdagar þar sem dagskrá og stundatöflu er þjappað saman og skóladagurinn verður frá kl. 8.30 til 12.00. Nemendur koma með nesti, búnir til útiveru og fara svo heim að dagskrá lokinni. Frístundaheimilið verður opið frá kl. 12.00 fyrir 1. – 3. bekk og fá þeir nemendur sem eru í mataráskrift hádegisverð. Dagskráin þessa daga er í vinnslu og verður nánar birt og kynnt eftir helgina. Nemendur munu fara í ýmsar vettvangsferðir gangandi, með strætó og eða rútu.

Kennarar munu á mánudag og þriðjudag vinna að skipulagi vikunnar ásamt því að endurskipuleggja náms- og kennsluáætlanir m.v. röskun á kennslu í sex daga.
Þriðjudaginn 21. febrúar verður opinn fundur fyrir foreldra í skólanum þar sem niðurstöður úttektar á skólahúsinu verða kynntar ásamt þeim viðgerðum sem þegar eru komnar í gang og þeim sem farið verður í síðar. Fundurinn verður í Sveintungu á Garðatorgi 7 og honum verður streymt.
Starfsfólk og stjórnendur skólans senda nemendum og forráðamönnum þeirra bestu kveðjur og þakkir fyrir þolinmæði og skilning í krefjandi aðstæðum.


Til baka
English
Hafðu samband