Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Forvarnarvika í leik- og grunnskólum í Garðabæ

02.10.2017
Forvarnarvika í leik- og grunnskólum í GarðabæDagana 2.-6. október verður haldin forvarnavika í leik- og grunnskólum Garðabæjar. Þema vikunnar er snjalltækjanotkun, líðan og svefn undir slagorðinu "Er síminn barnið þitt?". Í vikunni verður boðið upp á fræðslu þessu tengt fyrir foreldra í Garðabæ, starfsfólk skólanna og nemendur. Undirbúningur fyrir forvarnavikuna hefur staðið yfir frá því í vor og bæði starfsfólk og nemendur hafa komið að undirbúningnum.

Viðburðir í Hofsstaðaskóla í tengslum við forvarnaviku
Nemendur Hofsstaðaskóla munu taka þátt í bekkjarfundi þar sem rætt verður um örugga og heilbrigða tölvu- og snjalltækjanotkun og mikilvægi þess að fá nægan svefn, og sinna almennri umhirðu s.s. námi, félagatengslum o.fl. Allir árgangar skólans eru hvattir til að búa til annað hvort gogg eða tening sem er hugsaður sem hugmyndabanki um hvað er hægt að gera með fjölskyldunni án snjalltækja. Nemendur í 4. og 5. bekk fá sérstakt Andrés Andar blað sem fjallar um góðar netvenjur og munu kennarar taka viðfangsefni þess til umræðu. 


Opinn fræðslufundur fyrir foreldra – fimmtudaginn 5. október kl. 20 í Sjálandsskóla

Fimmtudaginn 5. október kl. 20:00 verður haldinn opinn fræðslufundur fyrir foreldra í húsnæði Sjálandsskóla, við Löngulínu. Á fundinum verður fjallað um umgengni við snjalltæki og hvað beri að varast. Á fundinum flytja Björn Hjálmarsson, barna- og unglingageðlæknir, og Arna Skúladóttir, hjúkrunarfræðingur, erindi. Yfirskrift erindis Björns Hjálmarssonar er ,,Snjalltækjanotkun barna og unglinga – er eitthvað að óttast?“, þar sem hann fjallar um þær miklulífstílsbreytingar sem orðið hafa hjá börnum og unglingum með tilkomu nýrrar tækni og hvort einhverjar ógnir lúri í farvatninu. Arna Skúladóttir, barnahjúkrunarfræðingur og sérfræðingur í svefni og svefnvanda barna, ræðir um hvað hefur áhrif á svefn barna og unglinga, t.d. skipulag á daglegu lífi, venjur foreldra og persónugerð barnsins. Léttar veitingar verða í boði á fundinum og allir eru velkomnir.

Starfsfólk Hofsstaðaskóla hvetur forráðamenn til að fylgjast vel með samskiptum barna sinna, bæði í raunheimi og í snjallheiminum.

Myndir með frétt

Til baka
English
Hafðu samband