Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Fjölbreyttur og hollur matur í grunnskólum

Ýmislegt er gert til að tryggja að tryggja gæði skólamálsverða í grunnskólum bæjarins og fylgjast með að þeir uppfylli kröfur um næringarinnihald og ferskleika. Í þessari grein er sagt frá því hvernig staðið er að þessu eftirliti.

Í könnun sem send var út í byrjun nóvember í tengslum við skólastefnu Garðabæjar kom fram að hópur svarenda taldi að hvorki væri eftirlit með gæðum skólamáltíða né séð til þess að nemendum stæði til boða hollur matur. Þessi niðurstaða var í samræmi við ábendingar frá svæðisráði foreldra nemenda í grunnskólum í Garðabæ. Það virðist því sem margir hafi ekki vitneskju um það hvernig hollustu skólamálsverða er háttað og hvernig staðið er að eftirliti með þeim í grunnskólum Garðabæjar. Tilgangur þessarar greinar er að bæta þar úr og upplýsa foreldra í Garðabæ um hvernig staðið er að framkvæmd og eftirliti með skólamálsverðum af hálfu bæjaryfirvalda.

Vorið 2009 vann starfshópur sem í voru tveir fulltrúar foreldra ásamt einum skólastjóra að útboðgögnum vegna skólamálsverða í grunnskólunum. Við þessa vinnu naut starfshópurinn meðal annars ráðgjafar frá Lýðheilsustöð til að tryggt væri að í samningi kæmu fram skýr viðmið um hollustu og fjölbreytni skólamálsverða grunnskólanemenda í Garðabæ.

Eftirlit með því að staðið sé við sett viðmið í þeim málsverðum sem nemendur er boðið upp á er þríþætt. Í fyrsta lagi er í samningnum sem gerður var við fyrirtækið Skólamatur ehf. kveðið á um að skólastjórar hafi eftirlit með framkvæmd samningsins í hverjum skóla.

Í öðru lagi hefur skóladeild á fræðslu- og menningarsviði Garðabæjar ráðið næringarfræðing til að skoða matseðla og næringarútreikninga og meta hvort þeir séu í samræmi við samning Garðabæjar við Sælkeraveislur ehf. Næringarfræðingurinn fer yfir alla matseðla og samþykkir þá eða breytir þeim. Það sem af er skólaárinu hefur umsögn næringarfræðingsins vegna matseðla og næringarútreikninga verið jákvæð og staðfest að gæði matarins séu í samræmi við samninginn. Þar kemur fram að maturinn sé fjölbreyttur og í samræmi við viðmið Lýðheilsustöðvar um ferskleika og næringarinnihald. Á næstunni mun næringarfræðingurinn einnig fara í vettvangsskoðanir í mötuneyti og eldhús grunnskólanna og skoða framkvæmd samningsins í hverjum skóla.

Í þriðja lagi er verksalinn sjálfur, Skólamatur ehf., með eftirlit með eigin framleiðslu og á aðföngum hjá sjálfstæðri rannsóknarstofu sem er Rannsóknarþjónustan Sýni. Aðili frá Sýni yfirfer matseðla og einnig eru teknar prufur af aðföngum frá birgjum til að tryggja að Skólamatur fái það hráefni sem um er samið og sem stenst kröfur um fituinnihald, saltmagn o.fl.

Það er mikið metnaðarmál hjá skóladeild að nemendum í grunnskólum Garðabæjar standi til boða fjölbreyttur og hollur matur. Sjálfsagt verður seint hægt að koma til móts við matarsmekk allra þeirra tæplega eitt þúsund grunnskólanemenda sem borða í skólamötuneytum grunnskólanna í Garðabæ. Það er hinsvegar sjálfsögð skylda okkar allra að tryggja að maturinn sé lystugur, fjölbreyttur og hollur. Það er það leiðarljós sem skóladeild Garðabæjar leggur áherslu á í samvinnu við foreldra og nemendur.

English
Hafðu samband