Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Rýmingaráætlun Hofsstaðaskóla

Leitast er við að tryggja öryggi nemenda og starfsmanna eins og kostur er. Rýmingarleiðir eru merktar í öllum kennslustofum. Ef eldur er laus í skólanum fer viðvörunarkerfi í gang.
Reglubundnar brunaæfingar verða tvisvar á ári, einu sinni á haustönn og einu sinni á vorönn.
Í hverri stofu er rýmingaráætlun, rýmingarleiðir, bekkjarlisti, stundaskrá og skóhlífar.

Fari brunaviðvörunarkerfið í gang:

1. Húsvörður fer að stjórntöflu brunaviðvörunarkerfis í anddyri og aðgætir hvaðan brunaboðið kemur. Slökkt er á brunaboða og svæðið sem gefið er til kynna skoðað. Ef um hættu er að ræða er næsti brunaboði ræstur handvirkt. Ræsa þarf viðvörunarbjöllu/skólabjöllu sem hringir stöðugt á meðan á rýmingu stendur. Forrit í tölvu húsvarðar og skólastjóra/ritara.
Læsir lyftu.

2. Skólaritari hefur samband við slökkvilið í síma 112 og tilkynnir um eld eða gefur skýringar á brunaboðinu. Tilkynnir til skólastjóra ef rýma þarf húsið og hringja viðvörunarbjöllu/skólabjöllu. Þangað til halda allir kyrru fyrir.
Skólaritari tekur með sér möppu með öllum bekkjarlistum, starfsmannalista og upplýsingum um aðstandendur.

3. Starfsfólk rýmir skólann og fer á söfnunarsvæðið. Allir starfsmenn eiga að fara út á battavöllinn. Þeir sem ekki hafa hlutverk gefa sig fram við ritara og skólastjóra á miðjum vellinum. Ritari fer yfir starfsmannalista og tilkynnir ef einhverja starfsmenn vantar í hópinn.

4. Bókasafnsfræðingur rýmir safnið.

5. Starfsfólk í matsal nemenda sér um að rýma salinn.

6. Matráður stýrir rýmingu á kaffistofu starfsmanna.

7. Kennarar undirbúa rýmingu kennslustofunnar (sjá rýmingarleiðir hægra megin við dyrnar). Kennarar taka með sér bekkjarlista og litaspjöld (geymt í kassa í skáp við vaskinn).
Kennarar fara með nemendur, í röð, á fyrirfram ákveðið söfnunarsvæði sem er battavöllur sunnan við skólann og raða þar nemendum upp í bekkjarraðir. Yngri fara inn á völlinn um inngang nær skólanum (N) og eldri nota inngang fjær (S). Bekkir raða sér upp eftir aldri frá innganginum inn á völlinn. Nemendur raða sér í beinar raðir.

8. Nemendur ganga rólega út í röð. Ekki eyða tíma í að klæða sig í yfirhafnir og skó. Nemendur klæða sig í skóhlífar þegar út er komið og fylgja kennara sínum út á battavöll.

9. Umsjónarkennarar fara yfir nafnalista og aðgæta hvort öll börnin hafi komist út, ef einhver börn vantar réttir hann upp rautt spjald annars grænt.

10. Skólaliðar aðgæta salerni og ganga og raða sér svo fyrir utan útidyr og varna því að fólk fari inn í skólann. Þeir beina umferð í átt að battavelli.

11. Deildarstjórar stiga fara á milli hópa, á sínu stigi, úti á battavelli og fá upplýsingar um hvort einhver börn hafi ekki skilað sér með hópnum út. Ef einhverja vantar  kanna þeir hvar þau sáust síðast í skólanum og upplýsa skólastjóri.

12. Skólastjóri gefur varðstjóra upplýsingar um hve mörg börn, eða fullorðnir hafa orðið eftir inni og hugsanlega staðsetningu þeirra.

13. Aðstoðarskólastjóri stjórnar uppröðun nemenda á battavelli. Í samstarfi við skólastjóra, vísar hann bæði börnum og fullorðnum af battavelli yfir í íþróttahúsið Mýrina. Þegar þangað er komið er haft samband við foreldra/forráðamenn. Fær fulltrúa slökkviliðsins (varðstjóra) til að tala við nemendur og starfsmenn.

14. Foreldrar/forráðamenn sækja nemendur í íþróttahúsið.

Sá aðili sem síðastur fer út úr hverju rými skal loka öllum dyrum (ekki læsa) til að draga úr reykflæði um bygginguna og hindra útbreiðslu elds eins og hægt er. Ekki má nota lyftu.

English
Hafðu samband