Orð af orði er þróunarverkefni sem Hofsstaðaskóli byrjaði að vinna með haustið 2011 og mun það vera út veturinn. Verkefninu er stýrt af Guðmundi Engilbertssyni sérfræðingi á skólaþróunarsviði Háskólans á Akureyri, en hann hefur innleitt verkefnið í ríflega 50 skólum með góðum árangri. Meginmarkmið með verkefninu er að efla orðaforða og orðvitund nemenda og auka þannig skilning þeirra í lestri og námi, en rannsóknir hafa sýnt marktæka fylgni milli orðakennslu og námsárangurs.
Orðakennslan er felld inn í hefðbundna kennslu og gerð að föstum lið í kennslu námsgreina. Viðfangsefnin eru fjölbreytt og er orðaforði kenndur bæði með beinum og óbeinum hætti, en slík kennsla hefur, samkvæmt rannsóknum, skilað góðum árangri. Nemendur vinna með orð og hugtök sem tengjast umhverfi þeirra og námsefni. Þeir vinna með stök orð, orðhluta og orðasambönd í fjölbreyttu samhengi. Áhersla er á samvinnu nemenda, m.a. til að skapa samræður um orð og hugtök.
Í verkefninu er lögð áhersla á vinnubrögð út frá ákveðinni hugmyndafræði. Í upphafi leiðir kennarinn verkefnið og sýnir nemendum þá færni og tækni sem hann vill að þeir læri og temji sér. Nemandinn vinnur síðan þann hluta verkefnis sem hann getur og honum er sýnt það þrep sem vantar upp á til að leysa verkefnið. Dregið er úr þátttöku kennarans þegar nemandinn sýnir, með frammistöðu sinni, að hann hafi öðlast færni í aðferðinni
Hér fyrir neðan má sjá dæmi um þau fjölbreyttu verkefni sem unnin hafa verið veturinn 2011-2012
Dæmi um verkefni sem unnin voru í nóvember og desember
Í 2. bekk er lestrartjald þar sem nemendur geta skriðið inn og lesið í rólegheitunum. Á veggnum hangir bókaormur en þangað fara allar þær bækur sem lesnar eru í bekknum. Í námsefninu Komdu og skoðaðu land og þjóð unnu nemendur m.a. orðalista sameiginlega þar sem þeir tóku út orð sem koma fyrir í námsefninu og unnu áfram með skilninginn á bak við orðin.
Í 3. bekk bjuggu nemendur til veggspjöld með öllum mánuðum ársins og leystu krossglímu í leiðinni. Í stærðfræðinni hafa verið útbúnar skjóður með orðum sem koma fyrir í plús og mínus dæmum. Orðaskjóður hafa einnig verið útbúnar fyrir lýsingarorð, nafnorð, persónur í sögum o.s. frv. Þessar orðaskjóður eru mikið notaðar í ritun og víðar. Allir nemendur fóru á kaffihús við Sjáland sem er í litlum kofa við sjóinn. Eftir ferðina var ferðin rifjuð upp, lykilorð skráð niður og skrifuðu nemendur sögu um dularfulla kaffihúsið og notuðu orð úr orðaskjóðunum.
Í 4. bekk eru nemendur hvattir til að lesa blöðin og koma með áhugaverðar greinar til að deila. Þær eru svo lesnar og hengdar inn í ramma. Greinarnar hafa vakið mikla lukku á ganginum þar sem nemendur staldra við og lesa og ræða gjarnan um innihaldið. Á veggnum hangir bókahilla og þangað safnast saman allar þær bækur sem lesnar eru í 4. bekk. Nemendur skrifa nafnið á bókinni og nafn höfundar og bæta í hilluna þegar bókin er lesin. Í ritun má sjá dæmi um hvernig hægt er að byrja sögur, nemendur komu með dæmi um margskonar leiðir til að hefja sögu. Þemaverkefni um risaeðlur hefur verið í fullum gangi og hafa nemendur skoðað bækur og lesið um risaeðlur, skráð niður það sem þeir vita um risaeðlur og hvað þá langar að læra. Ritgerð er skrifuð um risaeðlur þar sem unnið er upp úr frétt sem birtist nýlega á mbl.is. Nemendur fá nokkur orð úr fréttinni og skrifa sína eigin frétt. Að lokum lesa þeir svo fréttina sem birtist á mbl.is.
Í 5. bekk lásu allir nemendur söguna Öðruvísi fjölskylda. Nemendur týndu orð úr bókunum og flokkuðu þau niður í orðaskjóður. Í stærðfræðinni voru einnig gerðar orðaskjóður þar sem nemendur komu með dæmi um grunnaðgerðirnar, deilingu, margföldun, plús og mínus. Gunnar húsvörður skólans var í skemmtilegu viðtali í morgunblaðinu nú í nóvember þar sem hann sagði frá starfsferlinum. Nemendur lásu greinina og týndu út skrýtin og framandi orð, en þar kenndi ýmissa grasa og var margt nokkuð framandi fyrir nemendum. Þeir fundu málshætti og orðatiltæki sem tengdust orðunum og skrifuðu nýja grein með orðunum sem þeir höfðu lært.
Í 6. bekk í náttúrufræðinni er verið að spá í veðrið, lesnar eru fjölbreyttar fréttir sem tengjast efninu og spáð í þau fjölbreyttu áhrif sem veður getur haft. Í ritun kynntu nemendur sér markaðsfræðina lítillega og skimuðu eftir auglýsingum í blöðunum og bjuggu svo til sína eigin auglýsingu. Jólatréð í sjötta bekknum er búið til úr höndum nemenda, þar sem þeir skrifa jólaorð og skrifa svo jólasögu með orðunum sem standa á höndunum. Í stærðfræðinni var unnið með deilingu og komu nemendur með dæmi um margar leiðir sem hægt er að nota í deilingadæmum. Þegar fjallað var um flatarmál fóru nemendur út tóku myndir og reiknuðu út flatarmál þríhyrninga á skólalóðinni.
Nemendur í 7. bekk fengu það verkefni að koma með hugmyndir að orðtökum og nota þau í réttu samhengi. Orðtökin hanga nú upp á vegg í skólastofunni, ýmis ný orðtök hafa litið dagsins ljós hjá nemendum og sífellt að bætast í sarpinn. Áfram er svo unnið með orðtökin og þau sett inn í samfellda ritun þar sem það á við. Allir nemendur árgangsins velja sér a.m.k. tvær bækur til að lesa og vinna svo fjölbreytt bókaverkefni. Á myndunum má m.a. sjá leikmynd í kassa þar sem helstu atriði sögunnar eru rakin og sögupersónur eru orðnar að dúkkulísum. Í gluggana eru komnar jólastjörnur með jólakrossglímum.
Í sjöunda bekk er verið að vinna með líkamann. Nemendur gerðu myndir af líffærunum og orðum sem tengdust þeim. Einnig sjáum við hvernig verið er að vinna með orðaforðann í trúarbragðafræði. Nemendur skrifuðu jólasögu og fjölluðu um ýmislegt sem tengdist jólunum og minnir þau á jólin þau bjuggu svo til þetta fína jólaorðatré.
Í heimilisfræðinni fengu nemendur í 3. bekk að vinna verkefni tengd verkfærum í greininni. Á meðfylgjandi myndum má sjá hníf og orðtök tengd honum. Í 2. bekk unnu nemendur krossglímu aftan á vinnubókina.
Dæmi um verkefni sem unnin voru frá september - nóvember
Í fyrsta bekk eru kennararnir að vinna með orðið skóli. Þeir skrá orðið niður og fá fram umræður um hversu mörg orð byrja á orðinu skóli. Orðin eru svo skráð niður eftir nemendunum. Nemendurnir teikna myndir, skrifa stafi sem þau þekkja úr orðunum og skrifa orðin sem þau ráða við.
Í öðrum bekk eru krakkarnir að vinna með fjöll í samfélagsfræðinni. Þau ræða um ýmis orð eins og fjall, fell, hóll, hæð o.s.frv. Meðal annars er fjallað um úr hverju fjöllin eru gerð, ýmis fjöll skoðuð litir þeirra og heiti. Nemendur gengu á Úlfarsfell í Mosfellsbæ.
Í þriðja bekk er verið að nota orð sem koma fyrir í samfélagsfræðinni og nemendur vinna á fjölbreyttan hátt með þau. Þeir skoða hvað orðin merkja í hvaða orðflokka þau greinast, túlka hugtök með því að teikna myndir og setja í nýtt samhengi.
Í fjórða bekk er verið að vinna með orðin í samfélagsfræðinni, verið er að vinna með veðrið og umferðina. Einnig er úrvinnsla úr ljóði um haustið sem nemendur unnu í samvinnu, þeir fengu orðarugl og áttu að raða saman orðunum í ljóð. Þeir lásu svo ljóðið eins og skáldið orti það.
Í fimmta bekk sjáum við dæmi um vinnu nemenda með orð í tengslum við Leif heppna. Nemendur bjuggu til hugtakakort með orðum úr sögunni og skrifuðu svo frásögn þar sem orðin komu fyirr sem þeir höfðu verið að vinna með.
Í sjötta bekk er verið að vinna með valin orð í bókmenntunum og í samfélagsfræðinni, til að dýpka skilninginn. Orðaskjóður eru settar upp þar sem nemendur flokka orð í poka eftir eiginleikum og vinna með áfram.
Í sjöunda bekk er verið að vinna með líkamann og nemendur gerðu myndir af líffærunum og orðum sem tengdust þeim. Einnig sjáum við hvernig verið er að vinna með orðaforðann í trúarbragðafræði.
Hér sjáum við dæmi úr heimilisfræðinni þar sem nemendur eru að vinna með orðið Hollt og gott. í tónmenntinni fengu nemendur ljóð þeir klipptu orðin niður sem komu fyrir í ljóðinu og röðuðu upp á nýtt.