Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Fjölbreytt og skapandi skólastarf. Skýr markmið, vellíðan nemenda og starfsfólks

Starfið í skólanum er fjölbreytt, metnaðarfullt og framsækið en byggir jafnframt á traustum grunni. Lögð er áhersla á leiðbeinandi kennsluhætti og skapandi starf. Leiðarljósin fimm; vinnusemi, virðing, viska, vellíðan og verkmennt fléttast inn í skólastarfið á margan hátt. Skólinn er vel tækjum búinn og er upplýsingatækni mikið nýtt í námi og kennslu. Í öllum árgöngum er kennsla í svokölluðum Smiðjum en þá fara nemendur tvisvar sinnum í viku í ýmsar námsgreinar t.d. heimilisfræði, myndmennt, textílmennt, smíði, forritun, eðlisvísindi og slökun sem eykur fjölbreytni viðfangsefna. Skólinn tekur árlega þátt í Nýsköpunarkeppni grunnskóla (NKG) en þar hafa nemendur oft unnið til verðlauna. Ýmiskonar uppbrot og viðburðir eiga sinn fasta sess í starfinu t.d. skemmtanir á sal, samsöngur, HS-leikar, öskudagsfjör og vettvangsferðir, 100 daga hátíð í 1. bekk, diskótek, upplestrarkeppni, þorrablót í 6. bekk, árshátíð og Reykjaferð í 7. bekk.

Vellíðan
Einn mikilvægasti þáttur skólastarfs er vellíðan nemenda og starfsmanna. Lögð er áhersla á að gera skólaumhverfið öruggt og notalegt. Vel er hlúð að nemendum og þess gætt að þeir fái þörfum sínum fullnægt. Unnið er að því að innleiða hugmyndafræði Uppeldis til ábyrgðar í skólastarfinu. Hvatt er til opinna og jákvæðra samskipta sem eru lykillinn að vellíðan og árangri. Mikilvægt er að nemendur geti borið kennsl á gildi, svo sem virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum, umhyggju og sáttfýsi. Hugarfrelsi, hugarrækt og geðrækt eru kenndar með það að markmiði að kenna börnum einfaldar aðferðir til að efla sjálfsmynd sína og verða besta útgáfan af sjálfum sér. Í kennslustundum er m.a. unnið með sjálfsstyrkingu, öndun, slökun og hugleiðslu. Í frímínútum hefur Vinaliðaverkefni í 4. – 7. bekk heppnast vel en þá stjórnar valinn hópur nemenda leikjum á ákveðnum svæðum og virkjar aðra nemendur í fjölbreyttum leikjum og hreyfingu.

Læsi
Metnaðarfull og lifandi lestrarefna skólans er góður leiðarvísir í vinnu með læsi. Lögð er mikil áhersla á alla þætti læsis eins og lestur og lesskilning auk markvissrar ritunarkennslu. Samstarf við foreldra skiptir miklu máli í lestrarkennslunni og er heimalestri fylgt markvisst eftir. Skýr markmið í upphafi kennslustunda og leiðbeinandi endurgjöf á vinnu nemenda styrkir þá í að ná settum markmiðum.

Þróunarstarf
Í Hofsstaðaskóla er stöðugt unnið að þróun og endurbótum á námi og kennslu. Mörg þróunarverkefni hafa verið unnin síðustu skólaár t.d. Uppeldi til ábyrgðar, agastjórnun og verkfærakista KVAN, jákvæður skólabragur, vaxandi hugarfar, teymiskennsla, læsi, leiðbeinandi kennsluhættir, stærðfræði, og vellíðan í skólastarfi. Með þróunarstarfinu er m.a. unnið að því að auka fjölbreytni í kennsluháttum, koma betur til móts við þarfir, áhuga og getu sérhvers nemanda og stuðla að vellíðan og góðum árangri.

Kynning á skólastarfi í 1. bekk
Ef áhugi er á að fá nánari upplýsingar eða kynningu á starfinu er hægt að hafa samband við skrifstofu skólans annað hvort með tölvupósti á netfangið hskoli@hofsstadaskoli.is  eða í síma 590-8100.

 

 

 

 

 


 
English
Hafðu samband