Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Í Garðabæ velja foreldrar skóla fyrir barn sitt og bera ábyrgð á að innrita barnið í þann skóla sem þeir velja. Skólarnir sem innrita börn í 1. bekk kynna starf sitt fyrir foreldrum verðandi grunnskólanemenda á fundi í febrúar ár hvert. Sjá kynningarefni

Um skólann

Hofsstaðaskóli var stofnaður árið 1977 sem útibú frá Flataskóla en haustið 1980 varð hann að sjálfstæðri stofnun. Upphaflega var skólinn staðsettur í safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli og var þá fyrir nemendur í 1. - 4. bekk. Hann fluttist í nýtt húsnæði við Skólabraut í Garðabæ árið 1994 og var 1. áfangi hússins tekinn í notkun, 2. áfangi haustið 1996 og sá þriðji haustið 1999. Haustið 2015 er tekin í notkun viðbygging við skólann sem hýsir list- og verkgreinastofur á neðri hæð og aðstöðu starfsmanna á efri hæð.

Í Hofsstaðaskóla eru 518 nemendur í 1. - 7. bekk í alls 27 bekkjardeildum. Við skólann starfa um 45 kennarar að skólastjórnendum meðtöldum. Aðrir starfsmenn eru um 50. Yngri nemendur skólans eru að jafnaði í skólanum frá kl. 8:30-14:00 og eru það 30 kennslustundir á viku. Skóladagur eldri nemenda er breytilegur eftir dögum. Þeir byrja alltaf 8:30 og eru 35 stundir á viku.

Húsvörður opnar skólann kl. 7:45. Kennsla hefst kl. 8:30 og lýkur á bilinu 14:00-15:00. 
Skrifstofan er opin virka daga kl. 8:00-15:30.

Skólastjórnendur:
Skólastjóri: Hafdís Bára Kristmundsdóttir
Aðstoðarskólastjóri: Margrét Einarsdóttir 
Deildarstjóri 1.-4. bekkur: Arnheiður Ösp Hjálmarsdóttir
Deildarstjóri 5.-7. bekkur Margrét Erla Björnsdóttir
Deildarstjóri stoðþjónustu: Bergljót Vilhjálmsdóttir

Sími í skólanum 590 8100

Netfang: hskoli@hofsstadaskoli.is
Veffang: http://www.hofsstadaskoli.is 

Áhersla á skapandi starf og einstaklingsmiðað skólastarf

Markmið Hofsstaðaskóla er að öll börn hafi jafnan rétt til náms og líði vel í skólanum. Stuðlað er að því að nemendur læri sjálfstæð, vönduð og fjölbreytt vinnubrögð. Áhersla er lögð á hlýlegt umhverfi, glaðlegt viðmót, vel menntað og hæft starfsfólk. Í skólanum er lögð áhersla á samvinnu og samræmingu námskrár leik- og grunnskóla og unnið er eftir samstarfsáætluninni „Brúum bilið“. Til þess að koma til móts við þarfir nemenda er unnið í misstórum hópum innan árganga eftir eðli verkefna og aðstæðum.

Upplýsingatækni er markviss og hefst þegar í 1. bekk ásamt kennslu í list- og verkgreinum sem einkennast af metnaði og sköpun. Kennsla í ensku hefst í 1. bekk en þar er lögð áhersla á söng og leik í tengslum við daglegt skólastarf. Í eldri árgöngum er námið færnimiðað m.a. í ensku og stærðfræði.
Félagslíf í skólanum er mjög fjölbreytt og miðar að því að nemendur læri að bera virðingu hver fyrir öðrum og sköpunargleði þeirra fái notið sín.

Meðal reglulegra viðburða eru samkomur á sal, samsöngur, útivist, þorrablót hjá 6. bekk, árshátíð hjá 7. bekk, þemadagar og íþróttadagur.

Í Hofsstaðaskóla er lögð áhersla á gagnkvæma virðingu og jákvæð samskipti heimila og skóla. Gott skólastarf byggir á markvissri þátttöku foreldra í námi barna sinna og öflugu skólaráði og foreldrafélagi.

Leiðarljós
Vinnusemi-virðing-viska-verkmennt-vellíðan

English
Hafðu samband