Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Umferðaröryggi
Aðkomuleiðir að skólanum eru hannaðar með það í huga að tryggja sem best öryggi nemenda. Hringtorg er við enda Skólabrautar þannig að auðvelt er að hleypa nemendum út úr bílum. Það má aldrei leggja bílum á hringtorginu, því þá teppist umferðin og hætta skapast á svæðinu. Ekki má heldur aka bílum inn á leikvöllinn og skólalóðina þegar verið er að sækja börn í skóla eða frístundaheimili því það skapar mikla hættu fyrir börnin.

Frímínútnagæsla
Kennarar og aðrir starfsmenn sjá um gæslu í frímínútum. Aðstoðarskólastjóri skipuleggur gæsluna og hefur með henni eftirlit. Yngri nemendur eru í frímínútum á öðrum tíma en eldri nemendur. Þannig er mun meira svigrúm á skólalóð, færri árekstrar og börnin njóta sín betur í leik.

Hjólreiðar
Börn sem eru að hefja skólagöngu eiga alls ekki að ferðast ein um á reiðhjóli. Samkvæmt umferðarlögum má barn yngra en 7 ára ekki hjóla á akbraut nema undir eftirliti fullorðinna.
Eldri nemendur mega koma á hjóli í skólann með samþykki foreldra. Öll börn eiga alltaf að nota hjálm og ljós og endurskinsmerki þurfa að vera í lagi á hjólinu.

Óhöpp eða slys
Viðbrögð við áföllum eða slysum á skólatíma eru þau að strax er reynt að hafa samband við foreldra. Ef einhver bið er á að foreldrar geti komið gerir skólinn strax ráðstafanir við hæfi. Öll slys og óhöpp eru skráð í sérstakt skráningarforrit, atvik.is. 

Óveður
Ef sú staða kemur upp að lögregla eða almannavarnir mæla með að börn mæti ekki í skólann vegna óveðurs þá reiknum við með að foreldrar verði við þeim tilmælum eftir því sem hægt er.

Það er ávallt neyðarúrræði að fella niður kennslu vegna veðurs. Ef ekki hefur komið tilkynning frá skólanum um slíkt, en foreldrar telja það viðsjált og hættulegt börnum sínum að fara í skólann halda þeir þeim að sjálfsögðu heima. Slíkt ber að tilkynna eins og önnur forföll. Ef óveður skellur á meðan nemendur eru í skólanum þurfa foreldrar að sækja börn sín eða tryggja þeim heimför í samráði við skólann.

 

Skólinn er ekki lokaður og kennsla fellur ekki niður en verður með óhefðbundnum hætti ef nemendur eru fáir.

  1. Skólahúsnæðið er opnað um leið og fyrsti starfsmaður er mættur
  2. Skilaboð eru sett á símsvara skólans.
  3. Foreldrar eru beðnir um að senda tölvupóst og tilkynna fjarvistir.
  4. Foreldrum er sendur tölvupóstur eins fljótt og auðið er.
  5. Tilkynning er sett á heimasíðu skólans.
  6. Þau börn sem mæta í skólann eru þar á ábyrgð starfsmanna.
  7. Ætlast er að foreldrar fylgi börnum sínum inn í skólann og sæki þau inn í skólann í lok skóladags eða þegar veður leyfir.
  8. Ekki er ætlast til að börnin hringi í foreldra sína og biðji um að vera sótt.
  9. Foreldrum er heimilt að sækja börnin áður en skólatíma lýkur.
  10. Börnin eru inni í frímínútum á ábyrgð starfsmanna.
  11. Tómstundaheimilið er opið samkvæmt auglýstum opnunartíma, en ekki er farið með börnin milli húsa nema í fylgd, ef það er talið öruggt, annars verða þau inni í skólanum.
  12. Bæjarstjórinn i Garðabæ er yfirmaður almannavarna í bæjarfélaginu og gefur fyrirmæli um lokun skóla vegna mannskaðaveðurs.
English
Hafðu samband