Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Hlutverk
Bókasafnið er hugsað sem lifandi fræðslu- og upplýsingamiðstöð. Hlutverk safnsins er að styðja við kennslu og námsmarkmið sem sett eru fram í námskrá skólans og aðalnámskrá grunnskóla. Safnið á að veita nemendum og starfsfólki greiðan aðgang að upplýsingum og heimildum. Það á að styðja við upplýsingalæsi nemenda, en það er sú þekking og færni sem þarf til að finna, flokka, vinna úr og miðla upplýsingum á skapandi og gagnrýninn hátt.

Bókasafnið gegnir einnig veigamiklu hlutverki við að efla lestur og læsi nemenda og því er mikilvægt að bjóða upp á lestrarhvetjandi efni og umhverfi. Bókasafnið tekur þátt í og stendur fyrir ýmsum verkefnum og viðburðum sem eru lestrarhvetjandi, vekja athygli á bókum og glæða lestraráhuga nemenda. Nánari grein er gerð fyrir verkefnum hvers árs í ársskýrslu skólans.


Opnunartími
Bókasafnið opnar kl. 8.10 og er opið fram eftir degi, að jafnaði til kl. 16. Fastur útlánatími er í upphafi dags frá 8.30-10.30. Nemendur koma þó yfir allan daginn til að ná sér í lesefni.

Sérstakir bókasafnspassar eru fyrir nemendur sem vilja koma á safnið og fær hver bekkur þrjá passa. Með þessu fyrirkomulagi er verið að jafna fjölda barna sem er á safninu hverju sinni. Þetta fyrirkomulag hefur gefist vel.

Utan útlánatíma gefst kennurum kostur á að bóka tíma í verkefnavinnu á safninu í samráði við starfsmann safnsins.

Safnkostur
Bókakostur safnsins er mjög góður og fjölbreyttur. Leitast er við að kaupa inn sem mest af nýjum skáldsögum til að viðhalda lestraráhuga nemenda og koma til móts við áhugasvið þeirra. Fræðibókahluti safnsins er góður og styður vel við nám nemenda og er bætt við hann eftir þörfum. Safnkosturinn er skráður í upplýsingakerfið Leitir sem er sameiginlegt bókasafnskerfi fyrir allt landið, www.leitir.is Almennur útlánatími gagna miðast við þrjár vikur.

Aðstaða
Bókasafnið er staðsett á 2. hæð, það er rúmgott, litríkt og bjart. Góð aðstaða er fyrir kennslu á safninu og er hægt að koma með heila bekki í verkefnavinnu. Sýningartjald og skjávarpi er til staðar, sex hópaborð og 24 sæti. Engar tölvur eru á safninu en þess í stað er hægt að bóka tölvuvagn. Hluti af bókahillunum er á hjólum sem gefur aukna möguleika á nýtingu safnsins, s.s. fyrir fundi og námskeið. Mjög góð hljóðvist er á safninu.

Starfsfólk
Umsjón með safninu hefur Kristín H. Thorarensen bókasafns- og upplýsingafræðingur með grunnskólakennaramenntun.

English
Hafðu samband