Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Velkomin í 1. bekk - Foreldrabréf júní 2021

 
Að byrja í grunnskóla eru mikil tímamót bæði fyrir foreldra og barnið. Þá hefst samstarf milli heimilisins og skólans um menntun og velferð barnsins. Skólinn vinnur samkvæmt verklagsreglum Brúum bilið. Þar er m.a. kveðið á um samstarf skólans og leikskóla í nærumhverfinu með það að markmiði að auðvelda nemendum flutning úr leikskóla í grunnskóla. Hofsstaðaskóli er með þrjá vinaleikskóla, Hæðarból, Akra og Lundaból. Deildarstjóri yngra stigs heldur utan um Brúum bilið verkefnið og skipuleggur fund á haustin þar sem leik- og grunnskólakennarar hittast til að ræða nám og áherslur á báðum skólastigum. Leikskólanemendur koma í reglulegar heimsóknir yfir skólaárið, þar sem nemendur taka m.a. þátt í samsöng, verkefnavinnu, frímínútum, heimsækja bókasafnið og skoða skólann. Í maí er öllum verðandi 1. bekkingum Hofsstaðaskóla boðið í svokallaðan Vorskóla.

Lögð er áhersla á að upplýsa foreldra um kennslufyrirkomulag og áherslur í skólastarfinu. Á vorin er foreldrum boðið að hitta skólastjórnendur meðan nemendur eru í Vorskólanum. Á haustin er fræðslufundur um lestur og farið yfir áherslur í skólastarfinu. Einnig eru foreldrar upplýstir um mikilvægi heimila í lestrarþjálfun nemenda.

Á heimasíðu Heimilis og skóla eru nokkrir punktar sem gott er að hafa í huga.

ER BARNIÐ ÞITT AÐ BYRJA Í GRUNNSKÓLA?
• Þú berð höfuðábyrgð á menntun þess skv. aðalnámskrá grunnskóla
• Mikilvægt er að mæta á námskeið og fundi fyrir foreldra 1. bekkinga
• Röltu með barninu um skólalóðina og helst um skólann, utan annatíma
• Finndu bestu leiðina í skólann, farðu hana nokkrum sinnum með barninu og leiðbeindu því
• Veldu skólatösku við hæfi sem fer vel með bæði barnið og töskurnar. Hafðu barnið með, það þarf að máta skólatöskur eins og föt
• Aðgættu að barnið sé ekki að bera of þunga tösku og að þyngstu bækurnar séu næst bakinu
• Sendu barnið alltaf með nægt og hollt nesti í skólann
• Veittu barninu ríkulega hlýju, stuðning og áhuga
• Gættu þess að hafa nægan tíma fyrir barnið á degi hverjum meðan það er að aðlagast skólanum
• Vertu í sambandi við kennarann, best er að þið styðjið hvert annað, því markmiðið er sameiginlegt: Velferð barnsins þíns!
• Mikilvægt er að styðja við heimanám barnsins og að láta það lesa á hverjum degi

Á vef Hofsstaðaskóla má nálgast ýmsar upplýsingar um skólann s.s. skólareglur, upplýsingar um Frístundaheimilið Regnbogann, matarmál og ýmsa stoðþjónustu. Foreldrar eru hvattir til að kynna sér þessar upplýsingar og skóladagatal komandi skólaárs. Þar er einnig að finna krækju á umsóknareyðublöð eins og t.d. umsókn og samning um dvöl í Regnboganum og umsókn um leyfi frá skólasókn

Þegar barnið byrjar í skólanum fá foreldrar aðgang að Fjölskylduvef Mentor. Þar verður hægt að nálgast ýmsar upplýsinga um s.s. fréttir úr skólastarfinu, bekkjarlista, heimavinnuáætlun, ástundun og fleira. Tölvupóstur er einnig sendur reglulega frá skólanum bæði af umsjónarkennara og öðrum starfsmönnum varðandi skólastarfið.





English
Hafðu samband