Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Hofsstaðaskóli notar félagsfærniverkefni til að efla félagsfærni nemenda. Verkefnin henta vel til að vinna með sjálfsmynd nemenda og eru ætluð til að styrkja og styðja þá. Þau hjálpa þeim að lesa í umhverfi sitt, fara eftir fyrirmælum og setja sér mörk. Verkefnin hafa öll verið unnin með nemendum Hofsstaðaskóla frá 1. upp í 7. bekk. Þau eru myndræn og hægt er að breyta þeim og laga eftir þeim nemendum sem verið er að vinna með hverju sinni.

Afrakstur þeirra félagsfærniverkefna sem hér birtast eru samvinna þroskaþjálfa og námsráðgjafa í Hofsstaðaskóla.  Þróunarsjóður námsgagna styrkti okkur veturinn 2011-2012 til að klára verkefnin og gera þau aðgengileg á vef Hofsstaðskóla. 

Verkefnin eru fyrir nemendur á mismunandi þroskastigi, auðvelt er að breyta og bæta við verkefnin en nota sama grunninn þar sem þau birtast sem Word eða Publisher skjöl. Við höfum reynslu af því þar sem sömu verkefnin hafa verið notuð fyrir fjölda nemenda, þá er nöfnum og aðstæðum breytt en sami grunnur notaður.  Það er von okkar að þau nýtist ykkur á sama hátt.

Verkefnið skiptist í tvo hluta annars vegar félagsfærniverkefni sem eru ætlaðir til að styrkja sjálfsmynd nemenda og ýta undir meðvitund þeirra um sína sterku þætti.  Í möppunni félagsfærnileikir eru nokkur verkefni sem flokkast undir samvinnu, sjálfsmynd og vináttu.  Þetta eru allt verkefni sem hægt er að nota í bekk, litlum hóp eða einstaklingslega.

Hinsvegar eru verkefni sem miða öll að því að vinna með nemandann einslega. Þau skiptast í félagsfærnisögur sem byggja á því að auðvelda nemendum skilning í  frímínútum, námsgreinum, tilfinningum og sérstökum atburðum eða aðstæðum þar sem skólarútínan breytist. Í samningum og umbunarkerfum eru nokkrar hugmyndir sem miða að því að efla vinnuframlag og eða hegðun nemenda.

Verkefnisstjóri var Margrét Einarsdóttir, deildarstjóri sérkennslu

Bryndís Guðmundsdóttir, þroskaþjálfi

Elva Björk Ágústsdóttir, náms- og starfsráðgjafi

Ragnhildur Sigurðardóttir, þroskaþjálfi

English
Hafðu samband