Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Leiðarljós Hofsstaðaskóla er: Vellíðan, verkmennt, vinnusemi, viska og virðing. 

Við viljum hafa hlýlegt umhverfi og glaðlegt viðmót í skólanum. Við virðum rétt allra til þess að tjá eigin skoðanir og að þær séu virtar. Við stuðlum að því að nemendur læri aðvinna á sjálfstæðan og gagnrýninn hátt í síbreytilegu þjóðfélagi. Við berum ábyrgð, höfum trú hvert á öðru og því sem við gerum. Nánar um leiðir að settum markmiðum:

Sýn verður ekki að leiðarljósi skóla við það eitt að vera sett á blað. Sýn er það sem einstaklingarnir hugsa og hún verður ekki sameiginleg hópi kennara, hvað þá heilu skólasamfélagi, nema meirihlutinn sé henni samþykkur, geri hana að sinni og fylki sér um þau gildi sem hún byggir á. Þannig skapast hollusta og skuldbinding fagmanns við starf sitt. Það sem fær hann til að leggja sig varanlega fram er ekki tímabundin ytri umbun í formi aukagreiðslu eða annarrar sporslu, heldur sú innri umbun sem veitir honum ánægjuna af því að tilheyra samfélagi fagmanna sem stefnir að sameiginlegu marki, sjá bættan árangur af starfi og sjá eigin menntasýn verða að veruleika.

Unnin hefur verið framkvæmdaáætlun til að gera leiðarljós Hofsstaðaskóla sýnilegt. Hún hefur verið rædd og samþykkt innan skólans. Í henni koma allir starfsmenn skólans við sögu svo og nemendur og foreldrar. Foreldrar eru hvattir til að ræða við börn sín um gildi leiðarljóssins heima. Prentuð hafa verið plaköt til að hengja upp í kennslustofum og blöð sem allir nemendur fá með sér heim til að hengja upp til minnis. Öll sýnum við gott fordæmi og látum leiðarljós skólans skína í daglegu starfi.
English
Hafðu samband