Ágrip af 44 ára sögu Hofsstaðaskóla 1977-2021
Hofsstaðaskóli hóf starfsemi haustið 1977 sem útibú frá Flataskóla og starfaði í þrem kennslustofum í safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli. Nafn skólans er dregið af sveitabænum Hofsstöðum sem stendur við hliðina á safnaðarheimilinu. Á Hofsstöðum eru rústir af bæ frá 10. öld sem grafinn var upp 1994 og fannst þar einn stærsti víkingaaldarskáli sem fundist hefur á Íslandi.
Starfsmenn Hofsstaðaskóla á fyrsta starfsárinu voru sjö og unnu undir stjórn Guðrúnar Guðjónsdóttur yfirkennara. Vilbergur Júlíusson skólastjóri Flataskóla var skólastjóri. Nemendur voru 180 á aldrinum 6 – 9 ára. Skólinn var þrísetinn á árunum 1977-1984 og voru þá 217 nemendur þegar flest var. Með þrísetningu var hægt að hafa þennan fjölda nemenda í þröngu húsnæði.
Engin aðstaða var til kennslu í sundi og íþróttum. Senda þurfti börnin í sund í Ásgarð og íþróttir voru kenndar úti þegar veður leyfði. Þegar samkomusalurinn í safnaðar-heimilinu var tilbúinn fór íþróttakennslan fram þar en áfram sóttu börnin sundtíma í Ásgarð. Í samkomusalnum fór einnig fram allt félagsstarf og leiksýningar á vegum skólans. Fljótlega fékk skólinn til afnota fleiri kennslustofur á neðri hæð safnaðarheimilisins.
Árið 1980 varð Hofsstaðaskóli sjálfstæð stofnun og Hilmar Ingólfsson ráðinn skólastjóri og gegndi hann starfinu til ársloka 2006.
Þröngt var setinn bekkurinn og því var snemma farið að huga að skólabyggingu í Hofsstaðamýri við Skólabraut. Arkitektarnir Baldur Svavarsson og Jón Þorvaldsson hjá arkitektastofunni Úti og Inni hönnuðu skólann og var fyrsti áfanginn tekinn í notkun árið 1994. Húsnæðið í fyrsta áfanga var um 2.500 fm. og var það mikil bót frá þröngri aðstöðu í safnaðarheimilinu. Við hönnun skólans var gert ráð fyrir tveimur bekkjardeildum í árgangi, í 1. - 6. bekk. Húsnæðið varð strax of lítið og því var gerð stækkun á upphaflegri teikningu svo hægt væri að hafa þrjár bekkjardeildir í árgangi enda fjölgaði nemendum jafnt og þétt. Settar voru þrjár færanlegar skólastofur á skólalóðina ,,Hofin“ sem enn eru í notkun og var heiti þeirra breytt í ,,Höll“ þegar tengigangur var smíðaður fyrir framan stofurnar haustið 2012.
Haustið 1994 hófst kennsla í 5. bekk og voru nemendur þá orðnir 225. Haustið 1995 náðist svo markmiðið að kenna 1. – 6 .bekk í Hofsstaðaskóla, þegar 6. bekkur bættist við. Þann vetur var annar áfangi skólabyggingarinnar tekinn í notkun. Nemendur voru þá alls 322. Lokið var við þriðja áfanga byggingarinnar 1999 sem voru fjórar kennslustofur.
Haustið 1998 varð skólinn einsetinn þ.e. allir bekkir voru fyrir hádegi í skólanum, fimm kennslustundir á dag. Nemendur voru þá 383 í 18 bekkjardeildum. Tölvustofa var tekin í notkun þá um haustið og Elísabet Benónýsdóttir ráðin fagstjóri í tölvum.
Í skólahúsnæðinu er fjölnota salur sem var upphaflega notaður sem íþrótta- og samkomusalur. Salurinn var gerður að matsal fyrir nemendur eftir að íþróttahúsið Mýrin var tekið í notkun haustið 2004. Í Mýrinni er bæði kennslusundlaug og íþróttaaðstaða sem skólinn nýtir ásamt Fjölbrautaskólanum í Garðabæ og handknattleiksdeild Stjörnunnar.
Haustið 2005 hófst kennsla í 7. bekk í Hofsstaðaskóla. Nemendur voru þá 386 í 19 bekkjardeildum.
Í ágúst 2015 var tekinn í notkun fjórði áfangi Hofsstaðaskóla, ný og glæsileg viðbygging um 1200 fm. Viðbyggingin er á tveimur hæðum þar sem list- og verkgreinar og náttúrufræði eru kenndar á neðri hæð. Skrifstofur skólans eru á efri hæð sem og aðstaða starfsmanna. Samhliða nýbyggingunni voru gerðar töluverðar breytingar á eldri byggingu, m.a. var bókasafnið og tónmenntastofan færð til, eitt anddyri stækkað og gerðar endurbætur á salernum nemenda. Bekkjarstofum fjölgaði um þrjár þar sem áður voru list- og verkgreinastofur og einnig bættist við önnur tölvustofa.
Gæsla forskólanemenda (6 ára) hófst haustið 1985. Nemendur gátu fengið gæslu frá kl. 7:45 áður en kennsla hófst kl. 9:55-12:05. Þeir fóru síðan heim eftir kennslu. Þeir sem voru í skólanum eftir hádegi, 13-15:15 gátu fengið gæslu eftir að kennslu lauk til kl. 17:30.
Eftir að skólinn flutti í nýja húsnæðið við Skólabraut var opnunartími gæslunnar lengdur og var opið frá 7:45 – 17:30. Nemendur gátu verið í gæslu hvort heldur fyrir eða eftir skóla þar til einsetningu var komið á haustið 1998. Notast var við húsnæði á ýmsum stöðum innan skólans en haustið 2004 fluttist starfsemin í íþróttahúsið í Mýrinni. Haustið 2009 voru loks gerðar endurbætur á kjallara skólahússins og þar hannað sérstakt rými fyrir starfsemi þess.
Skólalóðin er orðin lítil eftir að byggt hefur verið ítrekað við en þar er körfuboltavöllur og battavöllur auk leiktækja sem foreldrafélagið hefur m.a. gefið skólanum. Frímínútum er tvískipt svo nemendur hafi aukið rými til leikja.
Foreldrafélag Hofsstaðaskóla hefur frá upphafi verið mjög öflugt og staðið þétt við bakið á skólanum. Foreldrar hafa m.a. stutt myndarlega við skólastarfið og gefið skólanum tæki og búnað.
Í janúar 2018 eru 560 nemendur við skólann og þar starfa um 100 starfsmenn. Í mars 2021 eru 573 nemendur í skólanum og 102 starfsmenn.
Stjórnendur Hofsstaðaskóla 1977-2021
Skólastjórar:
- 1977-1980 Vilbergur Júlíusson
- 1980-2006 Hilmar Ingólfsson
- 2007- 2019 Margrét Harðardóttir
- 2019 - Hafdís Bára Kristmundsdóttir
Aðstoðarskólastjórar:
- 1994-2004 Sigurveig Sæmundsdóttir
- 2001-2006 Sigurlín Sveinbjarnardóttir
- 2007- 2019 Hafdís Bára Kristmundsdóttir
- 2019- Margrét Einarsdóttir
Deildarstjórar:
- 2001-2017 Kristrún Sigurðardóttir miðstigi
- 2001-2006 Þorgerður Anna Arnardóttir yngsta stigi
- 2006-2007 Hafdís Bára Kristmundsdóttir yngsta stig
- 2007- Arnheiður Ösp Hjálmarsdóttir yngsta stig
- 2007-2019 Margrét Einarsdóttir sérkennslu
- 2017- Margrét Erla Björnsdóttir miðstigi
- 2020- Bergljót Vilhjálmsdóttir stoðþjónustu
Tekið saman af Kristrúnu Sigurðardóttur í janúar 2018 og uppfært 2021