Í frímínútum og útiveru:
Skipulagðar frímínútur eru tvisvar sinnum á dag í 20 eða 30 mínútur í senn. Frímínútur eru tvískiptar. 1. - 4. bekkur er saman og 5. - 7. bekkur er saman. Starfsmönnum á gæslu er raðað niður á ákveðin svæði og eru í endurskinsvestum. Skólinn tekur þátt í Vinaliðaverkefninu. Þrisvar til fjórum sinnum í viku sjá vinaliðar úr 4. - 7. bekk um leiki og dagskrá í fyrri frímínútum undir stjórn umsjónarmanns Vinaliðaverkefnisins. Útivera bekkjardeilda eða hópa er í umsjá kennara hverju sinni.
- Nýtum við tímann til útiveru og klæðum okkur eftir veðri.
- Stefnum við að því, í samráði við foreldra, að koma gangandi eða hjólandi í skólann þegar færð og veður leyfir.
- Notum við alltaf, reiðhjólahjálma á hjólum. Einnig á hjólabrettum, hlaupahjólum og línuskautum.
- Notum við ekki reiðhjól, hjólabretti, hlaupahjól, hjólaskó né línuskauta á skólalóðinni á skólatíma.
- Göngum við á gangstéttinni til og frá íþróttahúsinu.
- Förum við aðeins í snjókast á Stjörnuvellinum og köstum aldrei í áttina að skólanum, í starfsmenn eða þá sem ekki eru þátttakendur í leiknum.
- Nemendum er óheimilt að yfirgefa skólalóðina á skólatíma.
Vinaliðaverkefni
Vinaliðaverkefnið hóf göngu sína í Hofsstaðaskóla skólaárið 2016-1017. Verkefnið er norskt að uppruna og er það starfrækt í rúmlega 1000 skólum í Noregi og víðar. Verkefnið var í upphafi sniðið að nemendum í 5.-7. bekk í Hofsstaðaskóla en síðustu tvö skólaár hafa nemendur í 4. bekk einnig verið með.
Val á Vinaliðum
Nemendur í 4. – 7. bekk fá kynningu á verkefninu frá verkefnastjórum verkefnisins í skólanum þar sem nemendur eru upplýstir um hvað felst í því að vera vinaliði og hvað þeir fá að launum, taki þeir starfið að sér. Eftir kynninguna dreifir verkefnastjóri tilnefningablöðum og nemendur tilnefna bekkjarfélaga sína sem þeir treysta í hlutverkið. Það er lögð áhersla á það við nemendur að þeir eigi að tilnefna nemendur sem þeir vita að komi vel fram við skólafélaga sína. Nemandi sem kemur illa fram við skólafélaga sína getur ekki tekið að sér starfið á því tímabili. En hann getur bætt hegðun sína og mögulega valist til starfsins einhvern tíma síðar.
Vinaliðar starfa í eina önn í senn. Valið er í upphafi hverrar annar. Vinaliði getur starfað aftur, standi hann sig vel og njóti trausts kennara og samnemenda sinna.
Fjórir nemendur eru valdir úr hverjum bekk til að vera vinaliði. Eftir áramótin veljast aðrir fjórir nemendur
Vinnuframlag
Eitt mikilvægasta hlutverk Vinaliða er að bjóða öðrum börnum að vera með í leik. Mörg börn mæta beint á stöðvarnar og geta hafið leik en það er farið vel yfir það með Vinaliðunum að þegar leikurinn er byrjaður þá eigi þeir að fara til barna í næsta nágrenni við leikinn og bjóða þeim að taka þátt í honum. Það er lögð áhersla á það við Vinaliðana að þeir bjóði börnum með nafni að vera með í leiknum. Það er eitt markmið verkefnisins að öll börn fái spurninguna ,,viltu vera með?“ Í frímínútum.
Leikjanámskeið
Vinaliðar sækja leikjanámskeið á skólatíma. Vinaliðarnir fara í marga leiki og flestir læra eitthvað nýtt. Á leikjanámskeiðinu fá Vinaliðar líka tilsögn um starfið, ráðleggingar um hvernig er best að virkja önnur börn í leik, mikilvægi þess að vinna gegn einelti og margt fleira.
Vilhelm Már Bjarnason íþróttakennari sér um vinaliðaverkefnið í Hofsstaðaskóla