Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Heimsókn á RÚV

04.06.2009
Heimsókn á RÚV

Miðvikudaginn 3. júní sl. fóru þrír nemendur úr Hofsstaðaskóla í kynnisferð í Ríkisútvarpið Efstaleiti. Þetta voru þeir Bjarki Páll Hafþórsson, Hlynur Óskar Guðmundsson og Jóhann Hinrik Jónsson. Þeir eru allir sérlegir áhugamenn um fjölmiðlun og tækni. Elsa María Jónsdóttir dagskrárgerðarmaður tók á móti hópnum, leiddi hann um húsið og fræddi um starfsemina.

Strákunum gafst færi á spjalla við starfsfólk og spyrja það spjörunum úr um starfið hjá RÚV. Strákarnir byrjuðu fyrst á því að fylgjast örstutt með útvarpsútsendingu þar sem þátturinn Poppland var í loftinu og Margrét Maack var að kynna sjómannalagakeppni Rásar 2. Því næst var haldið í sminkið en þar var hún Ragna Fossberg að undirbúa Boga Ágústsson fyrir fréttalestur. Bogi spjallaði við strákana og gaf þeim eintak af fréttinni sem hann var að fara að lesa. Fréttin var um Gordon Brown og birtist hún í fréttatíma kvöldsins. Síðan var haldið í hjarta byggingarinnar safnið sjálft þar sem stór hluti menningararfsins er geymdur. Þar fræddu starfsmenn strákana um mismunandi tegundir myndefnis þ.e. geymsluform og gæði. Að því loknu tók Viðar Eggertsson á móti þeim og sagði þeim allt um útvarpsleikhúsið. Strákunum vannst mjög merkilegt að sjá aðstæðurnar sem útvarpsleikhúsið hefur til að búa til hin ýmsu hljóð því í stúdíóinu mátti finna eldhús og öll áhöld sem því fylgja, ótal tegundir gólfefna til að búa til mismunandi tegundir fótataks. Ef gólfflekunum í stúdíóinu er lyft upp má þar m.a. finna möl. Eftir það var haldið í aðal myndver sjónvarpsins. Þar fengu strákarnir að sjá myndstjórnina og tala við aðal tæknimann sjónvarpsins auk myndatökumanns sem fræddi þá um gullna sniðið og fleira áhugavert. Að lokum fengu strákarnir að prófa s.k. Green screen upptöku en hún er t.d. notuð í veðurfréttum. Þeir fengu svo að taka í eina af stóru myndavélunum og prófa hana.
Heimsóknin í RÚV var hápunktur drengjanna og höfðu þeir á orði þegar heim var komið að þetta hefði verið einn af bestu skóladögunum í lífinu og sá fróðlegasti til þessa. Það er því alveg ljóst hvar áhugi þeirra liggur þessa stundina. Aldrei að vita nema að í þeim leynist framtíðar starfsmaður RÚV. Reyndar þurfti að lokka þá út úr byggingunni með vilyrði um aðra heimsókn næsta haust. Við viljum þakka henni Elsu Maríu innilega fyrir frábærar móttökur og öllu starfsfólkinu sem gaf sér tíma til að fræða okkur.

Lítið á myndirnar sem teknar voru í heimsókninni

 

Til baka
English
Hafðu samband