Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Glæsilegur árangur á Íslandsmóti í skák

24.03.2014
Glæsilegur árangur á Íslandsmóti í skák

Skáklið Hofsstaðaskóla náði glæsilegum árangri á Íslandsmóti barnaskólasveita (1.-7. bekkur) sem haldið var um helgina en liðið lenti í 4. sæti. Væntanlega er þetta besti árangur skólans í sögu mótsins. Liðið fékk 24 vinninga af 36 mögulegum og var aðeins einum vinningi frá því að ná bronsverðlaunum. Alls tóku þátt 49 sveitir frá 24 skólum, eða 200 krakkar sem er næstbesta þátttaka frá upphafi mótsins. Lið Hofsstaðaskóla var skipað eftirtöldum nemendum en þeir eru allir í 5. GP:
1. borð: Bjarki Arnaldarson, 7 v. af 9 mögulegum
2. borð: Matthías Pálmason, 6
3. borð: Ísak Logi Einarsson, 6,5
4. borð Fannar Ingi Grétarsson, 4,5 

Árangurinn er ekki síður eftirtektarverður í ljósi þess að Ísak Logi og Fannar Ingi hafa ekki stundað skáklistina af krafti undanfarin ár en vonandi verður mótið þeim hvatning til að leggja meiri rækt við skákina. Fjórmenningarnir eiga allir rétt á að tefla á þessu móti í tvö ár til viðbótar. Á myndasíðu skólans má finna myndir frá mótinu.

Álfhólsskóli varð Íslandsmeistari í þriðja sinn í röð með 28,5 vinninga og Rimaskóli í 2. sæti með 27 vinninga. Skólarnir munu á árinu keppa á Norðurlandamóti barnaskólasveita sem fram fer hér á landi síðar á árinu. Mikil gróska er í skákstarfi Álfhólsskóla því sveitin sendi 7 lið til keppni.

Til baka
English
Hafðu samband