Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Þorraveisla nemenda í 6. bekk

01.02.2015
Þorraveisla nemenda í 6. bekk

Það er óhætt að segja að mikið annríki, glaumur og gleði hafi verið við völd hjá nemendum 6. bekkja skólans undanfarnar tvær vikur þegar undirbúningur fyrir hið árlega þorrablót náði hámarki. Um stórhátíð er að ræða þar sem nemendur sjá um allan undirbúning og bjóða foreldrum til sannkallaðrar þorraveislu með glæsilegum skemmtiatriðum og dansi.

Fimmtudaginn 29. janúar var því mikið fjör í Hofsstaðaskóla en þá lögðu nemendur, undir styrki stjórn Kristrúnar Sigurðardóttir deildarstjóra eldri deildar, umsjónarkennara, list- og verkgreinakennara og annarra starfsmanna skólans lokahönd á undirbúning glæsilegs þorrablóts. Nemendur ásamt gestum mættu í hús upp úr kl. 18:00 og hófst dagskrá kvöldsins á fjölbreyttum skemmtiatriðum sem nemendur höfðu undirbúið. Á meðal atriða var tónlistarflutningur, myndbönd, leikrit, dans og söngur. Ekki má gleyma hinni frábæru kynningu á þorramatnum sem ávallt vekur mikla kátínu meðal nemenda og gesta. Þetta kvöld skora nemendur hver á annan til að borða hákarlinn en margir guggna og láta harðfiskinn og flatkökurnar nægja. Að mat loknum tekur að vanda við flutningur nemenda á minni karla og kvenna. Eftir flutning á minni kvenna standa karlarnir á fætur og syngja "Fósturlandsins freyja" og konurnar syngja „Á fætur“ eftir að flutningi á minni karla lýkur. Þá tekur við fjöldasöngur og dans þar sem gleðin skín úr hverju andliti.

Hér má nálgast myndir frá undirbúningi þorrablótsins og myndir frá skemmtuninni sjálfri. Nokkrar stúlkur úr árganginum gerðu heimildarmynd um undirbúning þorrablótsins. Myndin var sýnd á skemmtuninni og gaf hún skemmtilega innsýn í vinnuna í kringum þorrablótið. Hér má nálgast myndina

 


 

Myndir með frétt

Til baka
English
Hafðu samband