Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Barátta gegn matvælasóun –til verndar náttúrunni!

29.03.2016
Barátta gegn matvælasóun –til verndar náttúrunni!

Vikuna 7. – 11. mars tóku nemendur í Hofsstaðaskóla þátt í verkefninu Barátta gegn matvælasóun – til verndar náttúrunni á vegum Norden i skolen. Matarafgangar voru vigtaðir í matsalnum í eina viku hjá hverjum bekk fyrir sig og niðurstöður skráðar á vef Norden i skolen en þar með voru bekkirnir þátttakendur í verkefninu og hafa möguleika að vinna 5000 DKK (95.000 ISK). Dregið verður í lok verkefnisins á hverju Norðurlandanna. Sjá nánar hér á vefsíðu verkefnisins

Nemendur vissu ekki af vigtuninni fyrsta daginn en síðan fengu þeir fræðslu um verkefnið og jafnframt var rætt um matarsóun í heiminum og mikilvægi þess að minnka hana til að vernda umhverfið og auðlindir jarðar. Það var undravert að sjá hversu meðvitaðir nemendur urðu um að taka sér hæfilega skammta af mat þannig að sem minnstu væri hent. Nemendur sýndu það og sönnuðu að þeir geta lagt sitt af mörkum til að minnka matarsóun. Að meðaltali hentu nemendur 10 gr. af mat á dag en í 5. AMH var engum mat hent alla vikuna. Meðaltals minnkun frá fyrsta degi miðað við meðaltal næstu fjögurra daga var meiri en helmings minnkun eða úr 18 gr. að meðaltali á mann fyrsta daginn í 8 gr. að meðaltali á dag, næstu fjóra daga. Frábær árangur sem vonandi heldur áfram bæði í skólanum og inni á heimilum barnanna. Sjá niðurstöður á myndriti:

 

Markmiðið með þessu verkefni er að fræða nemendur og gera þá meðvitaðri um að hver og einn getur haft áhrif í umhverfismálum. Nemendur þurfa að halda áfram að standa sig vel í skólanum og vonandi skilar umræðan sér inn á heimilin þannig að öll fjölskyldan verði meðvituð um að hún geti tekið þátt í þessu mikilvæga verkefni - að minnka matarsóun til verndar náttúrunni. Við eigum bara eina jörð!

Vigtun á matarafgöngum í matsal Hofsstaðaskóla að þessu sinni er ekki gerð í fyrsta sinn. 2013 og 2014 fór fram vigtun til að sporna við matarsóun og nú, 2016, í þriðja sinn. Á meðfylgjandi myndriti má sjá miklar breytingar til batnaðar frá fyrri mælingum. Matarsóunin núna var rúmlega sex sinnum minni en 2014. Hún fór úr 66 gr. að meðaltali á nemanda árið 2014 í 10 gr. núna. Eflaust má rekja breytinguna að hluta til, til þess að á síðast skólaári var tekin upp sú nýbreytni í skólanum, að frumkvæði nemenda, að þeir skammta sér sjálfir mat í matsal. Þar með geta nemendur betur stjórnað hvað og hversu mikið þeir fá sér á diskana og með því dregið úr matarsóun. Sannarlega glæsilegur árangur.

 
 

Til baka
English
Hafðu samband