Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Vinaliðar í Hofsstaðaskóla

01.04.2016
Vinaliðar í Hofsstaðaskóla

Vinaliðaverkefnið hefur göngu sína í Hofsstaðaskóla um miðjan apríl. Verkefnið er norskt að uppruna og er það starfrækt í rúmlega 1000 skólum í Noregi. Vinaliðaverkefnið er einnig starfrækt í fleiri löndum í Evrópu með góðum árangri. Á Íslandi hefur Árskóli á Sauðárkróki verið í farabroddi við innleiðingu verkefnisins og hafa 30 grunnskólar, víðs vegar um Ísland, nú þegar innleitt verkefnið. Vinaliðaverkefnið gengur út á að hvetja nemendur til meiri þátttöku í leikjum í frímínútum og skapa með því betri skólaanda. Verkefnið verður sniðið að nemendum í 5.-7. bekk í Hofsstaðaskóla til að byrja með. Skólinn hefur skrifað undir samning um að taka þátt í verkefninu í a.m.k. þrjú ár. Aðalmarkmiðið er að allir nemendur skólans hlakki til að mæta í skólann sinn, alla daga.

Einelti
Skólalóðin og frímínúturnar eru, samkvæmt eineltisrannsóknum helsti vettvangur fyrir einelti. Vinaliðaverkefnið er ekki eineltisáætlun heldur stuðningsverkefni við eineltisáætlun skólans og er hugmyndafræðin sú að þar sem boðið er upp á skipulagt starf og áhersla lögð á jákvæð samskipti, fái gerendur eineltis aðra hluti til að hugsa um. Aðgerðaleysi er oft rótin að slæmum hlutum.

Val á Vinaliðum
Nemendur í 5. – 7. bekk fá kynningu á verkefninu frá verkefnastjórum verkefnisins í skólanum þar sem nemendur eru upplýstir um hvað felst í því að vera vinaliði og hvað þeir fá að launum, taki þeir starfið að sér. Eftir kynninguna dreifir verkefnastjóri tilnefningablöðum og nemendur tilnefna bekkjarfélaga sína sem þeir treysta í hlutverkið. Það er lögð áhersla á það við nemendur að þeir eigi að tilnefna nemendur sem þeir vita að komi vel fram við skólafélaga sína. Nemandi sem kemur illa fram við skólafélaga sína getur ekki tekið að sér starfið á því tímabili. En hann getur bætt hegðun sína og mögulega valist til starfsins einhvern tíma síðar.
Verkefnastjóri og umsjónakennarar fara yfir niðurstöðurnar úr hverjum árgangi fyrir sig í lok dags þegar nemendur eru farnir heim. Verkefnastjóri og umsjónarkennari mega eiga við niðurstöðurnar að einhverju leyti. Veljist nemandi í starfið sem hefur neikvæðar vinsældir í bekknum, ber umsjónarkennara og verkefnastjóra að láta annan nemanda taka þá stöðu. Það þarf ekki að tilkynna nemendum að átt hafi verið við niðurstöður.
Umsjónarkennarar hringja í foreldra þeirra barna sem völdust í starfið og biðja þá um að ræða við barnið sitt heima hvort það vilji taka að sér starfið. Barnið mætir í skólann að morgni næsta dags og hvíslar að umsjónarkennara sínum hvort það vilji taka að sér starfið. Þegar allir hafa staðfest má umsjónarkennari tilkynna hverjir starfa sem Vinaliðar þetta tímabil.
Að vera Vinaliði er þroskandi ábyrgðarstarf. Markmiðið er að allir nemendur geti orðið Vinaliðar einhvern tíma en hafa verður í huga að það á enginn rétt á að vera Vinaliði. Nemandi sem kemur illa fram við aðra og reynir ekki að bæta þá hegðun velst ekki í starfið.
Vinaliðar starfa í eina önn í senn. Valið er í upphafi hverrar annar. Vinaliði getur starfað aftur, standi hann sig vel og njóti trausts kennara og samnemenda sinna.
Þumalputtareglan er að velja einn Vinaliða fyrir hverja fimm nemendur í bekk og láta kynjahlutföllin í bekknum ráða fjölda hvers kyns. Þess vegna veljast fjórir nemendur úr 20 barna bekk til að taka að sér starfið. Eftir áramótin veljast aðrir fjórir nemendur og þá má geta sér til að á einu skólaári hafi valist átta Vinaliðar úr 20 barna bekk. Þá erum við að reikna með því að nýir Vinaliðar komi inn í allar stöður.

Vinnuframlag
Vinaliðar starfa í hálft ár og enginn Vinaliði starfar oftar en tvær frímínútur í viku. Vinaliðafrímínúturnar eru í fyrri frímínútum fjórum sinnum í viku. Vinaliði þarf að fara út á skólalóð fimm mínútum áður en frímínútur hefjast. Hann fer í Vinaliðavesti og setur upp leikjastöðina sína. Vinaliði sækir einnig fundi á tveggja vikna fresti. Þá skipuleggja Vinaliðar hvaða leikjastöðvar eiga að vera í boði næstu tvær vikurnar. Verkefnastjóri aðstoðar þá og raðar þeim síðan á stöðvar. Vinaliði starfar aldrei einn á stöð. Það er einnig hlutverk verkefnastjóra að passa upp á að ekki myndist föst pör Vinaliða sem starfa alltaf saman. Verkefnastjóri setur því upp ný pör á tveggja vikna fresti. Þegar Vinaliði á að starfa mætir hann fyrr út og býður alla velkomna í leikinn sem vilja. Það er aldrei fullt í Vinaliðaleik, Vinaliði finnur lausnir og hann kemur leiknum af stað og leikur með. Vinaliði er ekki gæslu- og þjónustuaðili fyrir hin börnin. Þetta eru frímínúturnar hans líka og hann á að leika með. Vinaliðinn leiðir leikinn áfram af sanngirni og með jákvæðum hætti.
Eitt mikilvægasta hlutverk Vinaliða er að bjóða öðrum börnum að vera með í leik. Mörg börn mæta beint á stöðvarnar og geta hafið leik en það er farið vel yfir það með Vinaliðunum að þegar leikurinn er byrjaður þá eigi þeir að fara til barna í næsta nágrenni við leikinn og bjóða þeim að taka þátt í honum. Það er lögð áhersla á það við Vinaliðana að þeir bjóði börnum með nafni að vera með í leiknum. Það er eitt markmið verkefnisins að öll börn fái spurninguna ,,viltu vera með?“ í frímínútum.

Hreyfing og skemmtun á venjulegum skóladegi
Mikilvægt er fyrir börn og unglinga að fá fjölbreytta hreyfingu og skemmtun og er það nauðsynlegur hluti af þroska þeirra enda hafa rannsóknir sýnt að það er samhengi á milli hreyfingar og námsgetu. Við viljum því að framboð af hvers konar hreyfileikjum og annarri afþreyingu í frímínútum sé fjölbreytt og skipulagt þannig að sem flestir finni eitthvað við sitt hæfi. Vinaliðaverkefnið er okkar leið til að mæta þessu, en í verkefninu eru settir upp leikir og afþreying af nemendum sjálfum og á þeirra forsendum. Nemendur skólans hafa að sjálfsögðu val um hvort og í hvaða leikjum þeir taka þátt.

Þátttaka í samfélaginu
Við leggjum áherslu á að nemendur sem taka að sér starf Vinaliða fái innsýn í samfélag sitt og tilfinningu fyrir viðburðum og því menningarstarfi sem er í nærsamfélaginu. Þetta er gert til að Vinaliðar geti orðið kveikja að þátttöku nemenda og skólans alls í menningu samfélagsins. Vinaliðar fá því afhent samfélagskort þegar þeir hafa hafið störf í Vinaliðaverkefninu. Samfélagskortið veitir þeim afslátt eða frían aðgang að ýmsum viðburðum, söfnum og fleiru.

Leikjanámskeið
Vinaliðar sækja þriggja klukkustunda leikjanámskeið á skólatíma. Vinaliðarnir fara í marga leiki og flestir læra eitthvað nýtt. Á leikjanámskeiðinu fá Vinaliðar líka tilsögn um starfið, ráðleggingar um hvernig er best að virkja önnur börn í leik, mikilvægi þess að vinna gegn einelti og margt fleira.

Umsjón/upplýsingar.
Í Hofsstaðaskóla eru íþróttakennararnir, Guðrún Arna Sigurðardóttir, Hreinn Októ Karlsson og Ragnheiður Þórdís Ragnarsdóttir umsjónarmenn verkefnisins.
Einnig er hægt að lesa sér meira til um verkefnið á heimasíðunni: https://tackk.com/vinalidar


Til baka
English
Hafðu samband