Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Smá stressuð en spennt

02.11.2016
Smá stressuð en spennt

Það er alltaf líf og fjör á Hofsstaðaskólaleikum og eru þeir án efa einn af hápunktum skólaársins. Leikarnir hafa skipað fastan sess í skólastarfinu síðan árið 2008 og hefur ríkt almenn ánægja með þá bæði meðal nemenda og starfsfólks. HS-leikarnir eru ávallt tilhlökkunarefni hjá nemendum. Sumir fyrirliðarnir voru bæði spenntir en smá stressaðir í morgun þegar þeir mættu í salinn til að taka á móti hópunum sínum. Stressið hverfur þó hratt þegar allir hittast og byrja að takast á við skemmtilegar þrautir í sátt og sameiningu. 

Markmiðið með leikunum er að vinna að góðum skólabrag með því að láta nemendur á ólíkum aldri vinna saman að lausn fjölbreyttra verkefna sem reyna á mismunandi hæfileika. Leikarnir eru jafnframt keppni milli hópa í samvinnu og félagsanda. Skipaðir eru leiðtogar s.k. fyrirliðar í hverjum hópi. Fyrirliðarnir koma úr röðum elstu nemenda skólans (6. og 7. bekk) og hafa þeir það hlutverk að gæta hópsins síns, styðja og styrkja yngri nemendurna og stuðla að almennri gleði. Þá tvo daga sem leikarnir standa yfir ríkir einstök virðing og gleði í skólanum og til að ýta enn frekar undir gleðina mætir starfsfólk í allra kvikinda líki þessa daga.

Á leikunum er nemendum skipt í hópa sem í eru 14-15 krakkar á mismunandi aldri. Annan daginn eru nemendur í íþróttahúsinu og leysa þar fjölbreytt verkefni sem reyna á ýmsa færni en hinn daginn í skólanum.

Að leikunum loknum verður haldin uppskeruhátíð þar sem veittar verða viðurkenningar til hópanna sem standa sig best og fyrirliðanna sem þykja til fyrirmyndar í að leiða sína hópa. Á myndasíðu skólans má sjá myndir frá fjörinu á Hofsstaðaskólaleikunum í ár.

 

Myndir með frétt

Til baka
English
Hafðu samband