Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Árshátíð 7. bekkja

16.04.2018
Árshátíð 7. bekkjaGlæsileg, fjörug og skemmtileg árshátíð nemenda í 7. bekk í Hofsstaðaskóla fór fram miðvikudagskvöldið 11. apríl. Hefð er fyrir því að nemendur fái að velja þema og að þessu sinni varð Friends þáttaröðin fyrir valinu. Nemendur sjá sjálfir um að búa til skreytingar, skreyta salinn fyrir kvöldið og útbúa matinn. Nemendur sjá jafnframt um skemmtiatriðin en sá siður hefur skapast að slá upp hæfileikakeppni þar sem þeim sem áhuga hafa býðst að láta ljós sitt skína. Í ár voru atriðin fjölbreytt og skemmtileg, fóru æfingar fram á göngum skólans í frímínútum, í salnum og hvar sem því var við komið fram að árshátíð.

Til þess að stórsýning sem þessi gangi snurðulaust fyrir sig þurfa allir nemendur og starfsmenn að leggjast á eitt og hjálpast að. Krakkarnir stóðu sig eins og hetjur og voru því allir sigurvegarar þetta kvöld sem gekk með eindæmum vel fyrir sig. Heiðursgestir kvöldsins voru foreldrar nemenda sem fengu að njóta glæsilegra skemmtiatriða og góðra veitinga.

Dómnefnd kvöldsins skipuðu: Námsráðgjafi skólans og tveir fyrrverandi nemendur skólans. Þeir áttu úr vöndu að ráða því allir skemmtikraftar kvöldsins stóðu sig mjög vel og atriðin þátttakendum til mikils sóma. Veittar voru viðurkenningar fyrir þrjú atriði; Besta atriðið var söngur við píanóundirleik sem Eva Margrét og Margrét Anna fluttu, frumlegasta atriðið var myndband sem þeir Gunnar, Hreiðar, Reynir og Vilberg gerðu. Söngatriðið Sigurjón Digri fékk viðurkenningu fyrir fjörugasta atriðið sem flutt var af Ásgeiri, Baldri, Bergvini, Breka, Daníel og Guðmundi.

Að borðhaldi loknu var slegið upp diskóteki. Þá var foreldrum boðið í kaffi og konfekt á kaffistofu starfsfólks á meðan nemendur stigu danssporin.

Myndir frá árshátíðininni eru á myndasíðu 7. bekkja

Myndir með frétt

Til baka
English
Hafðu samband