Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Endurmenntun starfsmanna

16.08.2022
Endurmenntun starfsmanna

Dagana 11. og 12. ágúst sátu allir starfsmenn Hofsstaðaskóla endurmenntunarnámskeið. Námskeiðið er framhaldsnámskeið í aga- og samskiptastefnunni Uppeldi til ábyrgðar. Hofsstaðaskóli hefur unnið að innleiðingu stefnunnar frá árinu 2018 og er þetta þriðja námskeiðið sem er haldið í skólanum. Auk þess hafa allmargir kennarar sótt önnur námskeið bæði hérlendis og erlendis.

Markmiðið með innleiðingunni er að skapa jákvæðan skólabrag þar sem allir starfsmenn ganga í takt af samheldni og umhyggju í samskiptum við nemendur. Að vinna með nemendum á þann hátt að þeir nái sjálfsaga og fái þörfum sínum mætt á jákvæðan hátt. Áherslur stefnunnar ríma ágætlega við áherslur í Menntastefnu Garðabæjar.

Hugmyndafræði uppeldis til ábyrgðar byggist á því að einstaklingurinn geti tekið sjálfstæðar, siðferðilegar ákvarðanir varðandi eigin hegðun þegar hann er laus undan skömmum, hótunum, sektarkennd eða væntingum og loforðum um umbun og að hann fái tækifæri til að meta lífsgildi sín (Gossen, 2004). Markmiðið er að styrkja einstaklinginn í að vera sá sem hann vill vera með hliðsjón af eigin sannfæringu frekar en að stjórnast út frá geðþótta annarra. Til að hjálpa börnunum inn á þessa braut og fá þau til að skoða eigið gildismat er áhersla lögð á spurningar eins og: Hvernig viljum við vera? og Hvað við þurfum að gera til að ná takmarki okkar?

Til baka
English
Hafðu samband