Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Fjölbreytt skólastarf og skipulag framundan

23.02.2023
Skólastarf hefur verið með óhefðbundnum hætti þessa vikuna.
Nemendur hafa verið í vettvangsferðum, öskudagsfjöri, farið í bíó, unnið á fjölbreyttum náms- og leikjastöðvum í því húsnæði sem við höfum nothæft í skólanum og í íþróttahúsinu ásamt því að sækja fræðslu og menningardagskrá á Hönnunarsafninu og á Garðatorgi. Dagskráin hefur gengið vel og á morgun fer 5. bekkur á skauta, 6. og 7. bekkur í keilu, 3. bekkur á Hvalasafnið en aðrir árgangar verða í nærumhverfi skólans.

Á hádegi á morgun höfum við fengið afhentar flestar þær stofur sem hafa verið lagfærðar og geta kennarar flutt inn og undirbúið kennslu næstu viku. Við fengum að vita í dag að við getum haft alla bekkina okkar í skólanum, í Höllinni og í lausu kennslustofunum sem hafa fengið nafnið Kastalinn. Það er mikill léttir að þurfa ekki að vera með skólastarf á fleiri stöðum.
1., 2., 4. ,5. og 7. bekkur verða áfram í sömu stofum og þeir voru í fyrir vetrarleyfið og 4. ÓG fer aftur í stofu 205.

6. bekkur færist úr austurálmu og yfir í vesturálmu. 6. AS verður í stofu 106. 6. AMH í stofu 108 og 6. AÞ í stofu 109. Verið er að vinna í að raða 3. bekk niður en þau verða í stofu 208, miðjustofunni í Höllinni, stofu 119 sem var áður tónmenntastofa og 219 sem var áður tölvustofa. Síðustu tvær stofurnar verða ekki tilbúnar fyrr en um miðja næstu viku og verða bekkirnir á bókasafninu og í Regnboganum þangað til. Foreldrar í 3. bekk munu fá nánari upplýsingar um staðsetningu bekkjanna sendar á morgun. Einnig verða sendar upplýsingar um endurröðun í anddyri. Skólamatur verður með hefðbundnum hætti á mánudaginn.

Verið er að ljúka við alþrif á skólahúsinu, húsgögnum og búnaði. Sýni verða tekin aftur þegar skólastarf hefur verið með hefðbundnum hætti í nokkrar vikur og þá kemur í ljós hvort viðgerðir hafi tekist.
Eins og fram kom á upplýsingafundinum sl. þriðjudag er búið að fjarlægja allt skemmt efni úr húsinu og gera við stofur í vesturálmu og í miðrými þannig að sérfræðingar telja húsnæðið vera hæft til notkunar. Hægt er að horfa á fundinn á vefnum: https://vimeo.com/event/2889559? . Skýrsla frá Mannvit með niðurstöðum og yfirlitsmyndum er væntanleg á vefsíðuna: https://www.gardabaer.is/umhverfi/byggingarmal-og-framkvaemdir/framkvaemdir/hofsstadaskoli-endurbaetur/ Krækju er að finna á forsíðu vefsíðu skólans www.hofsstadaskoli.is.

Þegar viðgerðir hófust voru loftristar og loftstokkar í útveggjum opnuð og kom í ljós að frágangur á þeim var óviðunandi og skemmdir voru í tréplötum við ristarnar í nokkrum stofum. Þeim var öllum lokað eftir að skemmt efni var fjarlægt og gengið frá á viðeigandi hátt með rakavarnarlagi og rakaþolnu efni. Austurálma, stofur 12-123 og 220-227 verða lokaðar til vors vegna leka og viðgerða.

Allt þetta hefur haft í för með sér talsverða röskun og vonum við að nemendur komist sem fyrst í stöðugt ástand. Starfsfólk skólans, verktakar og starfsfólk Garðabæjar hafa unnið af kappi að framkvæmdum og skipulagningu og mikið hefur áunnist á skömmum tíma. Er það von okkar að viðgerðir hafi tekist og skólahúsnæðið sé nú öruggara fyrir okkur öll sem hér starfa.

Stjórnendur og starfsfólk Hofsstaðaskóla
Til baka
English
Hafðu samband