Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Jólasögustund og stefnumót við nýjar bækur

19.12.2023
Jólasögustund og stefnumót við nýjar bækurÞað hefur að vanda verið líf og fjör á skólabókasafninu okkar nú í desember með hana Kristínu bókasafnsfræðing í fararbroddi. Hún bauð 1.-4. bekk í jólasögustund þar sem Lesnar voru sögur eftir Brian Pilkington, hver árgangur fékk að heyra sína sögu. Nemendur stóðu sig vel, voru góðir hlustendur og tilbúnir að taka þátt í spjalli um sögurnar. Margir voru komnir í jólaskap og farnir að hlakka til jólanna. Eftir notalega og stundum líflega sögustund gátu nemendur tekið þátt í léttum leik á safninu sem fólst í því að finna jólasveinanafnið sitt út frá afmælisdegi og mánuði. Ýmsar skemmtilegar samsetningar urðu til og skemmtu nemendur sér yfir skrítnum jólasveinanöfnum, s.s. Pizzuþefur, Piparkökugemlingur, Snjóþotugaur, Jólahúfukrækir o.fl. Að því loknu stóð nemendum til boða að skoða jólabækur.

Stefnumót við nýjar bækur

Í desember var 3.-6. bekk boðið á stefnumót við nýjar bækur, 7. bekkur þiggur boðið í fyrstu viku janúar. Fyrirkomulagið er þannig að öllum nýju bókunum sem keyptar voru inn á safnið var skipt niður á fimm borð og nemendur skiptu sér í fimm hópa. Nemendur fengu fimm mínútur á hverju borði til að kynna sér bækurnar, að þeim loknum fóru þeir á næsta borð. Nemendur sýndu nýju bókunum mikinn áhuga, úr varð mikið spjall og skemmtilegar umræður. Með þessu fyrirkomulagi fá nemendur tækifæri til að kynna sér allar bækurnar, handfjatla þær og skoða. Eitt af hlutverkum skólasafnsins er að viðhalda lestraráhuga nemenda og er þetta liður í því. Flestir nemendur fundu áhugaverðar bækur sem þá langar til að lesa og sumir ætluðu að setja þær á óskalista fyrir jólin. Í lok heimsóknarinnar fengu nemendur bókamerki að gjöf.

Á myndasíðu skólans má sjá nokkrar myndir frá einu af þessum stefnumótum við nýjar bækur

Myndir með frétt

Til baka
English
Hafðu samband