Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Gleðilegt nýtt skólaár

02.01.2024
Gleðilegt nýtt skólaárGleðilegt nýtt ár með þökk fyrir ánægjulegt og gefandi samstarf á liðnu ári. Nemendur hafa staðið sig vel og sýnt framfarir í námi og félagsfærni. Kennarar hafa lagt sig alla fram um að mæta nemendum og bjóða upp á fjölbreytt námsumhverfi þar sem lögð er áhersla á ábyrgð og virka þátttöku nemenda.
Framundan er nýtt ár, ný tækifæri og nýjar áskoranir. Kennsla á vorönn 2024 hefst 3. janúar. Miðvikudaginn 17. janúar er skipulagsdagur í leik- og grunnskólum og þá fellur kennsla niður. 24. janúar halda 6. bekkingar árlegt Þorrablót með þátttöku foreldra. 2. febrúar verða nemendastýrð foreldrasamtöl og fellur kennsla niður þann dag. Nemendur mæta með foreldrum til umsjónarkennara. Vetrarleyfi grunnskóla er vikuna 19. til 23. febrúar. Fjallaferðir í 4. – 7. bekk eru á dagskrá 5. og 6. mars. Skóladagatal vorannar er að finna á vefsíðu skólans með ýmsum öðrum upplýsingum.
Framkvæmdum í skólanum er að mestu lokið í bili og nú er unnið að því að minnka umferð að skólanum með því að bætt er við útskoti á Bæjarbraut, s.k. sleppivasa og þar geta foreldrar stoppað og hleypt börnum sínum út úr bílnum og þau gengið eftir nýjum gangstíg yfir grasvöllinn að skólanum. Eftir er að setja upp lýsingu á göngustíginn og þá verður hann tilbúinn til notkunar. Við minnum alla á að fara varlega í umferðinni við skólann og keyra út á enda í hringtorginu svo fleiri komist að. Nauðsynlegt er að börnin séu með áberandi endurskinsmerki svo þau sjáist vel í myrkrinu.
Í árslok voru nokkrir starfsmenn kvaddir. Þau Emma Ljósbrá Friðriksdóttir aðstoðarumsjónarmaður Regnbogans, Hákon Dagur Oddgeirsson og Arnar Pálmi Grétarsson stuðningsfulltrúar og Selma Kristjánsdóttir matráður starfsmanna sem sá einnig um síðdegishressingu í Regnboganum.
Anna Karen Elvarsdóttir er nýr aðstoðarmaður umsjónarmanns Regnbogans. Kári Ketilsson og Ögmundur Árni Sveinsson eru nýir stuðningsfulltrúar og verða þeir líka í Regnboganum. Við bjóðum þau öll velkomin til starfa.
Með samstarfskveðju
f.h. skólastjórnenda
Hafdís Bára Kristmundsdóttir
Til baka
English
Hafðu samband